Stefna að riðulausu Íslandi fyrir 2044

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra kynnti áætlunina í dag.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra kynnti áætlunina í dag. mbl.is/Arnþór

Stjórnvöld stefna að riðulausu Íslandi á næstu tuttugu árum. Lögð verður áhersla á sæðingar til að rækta fjár­stofn sem ber vernd­andi arf­gerðir gegn riðuveiki.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra, Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar, og Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands, skrifuðu öll undir landsáætlun um útrýmingu riðu fyrr í dag.

„Ég er bara alveg svakalega ánægð með að við séum loksins komin hingað. Það er löngu löngu tímabært að svo sé,“ segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra í samtali við blaðamann mbl.is.

„Það er auðvitað búið að vera afskaplega dapurt að horfa upp á það að svo árum og áratugum skiptir þegar hefur þurft að skera niður fé á sveitabæjum og horfa á bændur missa allt sitt.“

Frá undirritun landsáætlunar um útrýmingu riðu.
Frá undirritun landsáætlunar um útrýmingu riðu. mbl.is/Arnþór

Áætlunin til 20 ára

Við undirskriftarathöfnina sagði matvælaráðherra að stefnt væri að því að gera Ísland riðulaust. 

Hvenær megum við búast við því?

„Áætlunin er til 20 ára en verður endurskoðuð árlega og ég hef trú á því að bændur séu bara mjög ákafir í að taka þátt í þessu og eru auðvitað byrjaðir nú þegar, eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan, þannig ég vonast til þess að við náum þessu jafnvel fyrr heldur en áætlanir gerðu ráð fyrir,“ segir Bjarkey.

Hún bætir við að aðgerðum hafi þegar verið hrint í gang að einhverju leyti, þar sem sæðingar eru þegar hafnar með arfgerðarhreinum genum.

„Það er farið að bera ávöxt og við erum þegar komin með fleiri arfgerðir sem verið er að rannsaka enn frekar sem vonandi hjálpar til að flýta ferlinu.“

Að drepa fé kostar fé

Í erindi sínu við undirskriftina sagði Bjarkey að þessar aðgerðir myndu minnka fjárútlát ríkisins.

Spurð nánar út í þennan sparnað svarar Bjarkey:

„Það kostar peninga að borga bætur til bænda sem í þessu standa. Það kostar peninga að koma stofni á aftur og það kostar pening að girða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert