Svikahrappar nota íslensk símanúmer

Guðmundur Arnar Sigmundsson, sviðstjóri netöryggissveitarinnar CERT-ÍS.
Guðmundur Arnar Sigmundsson, sviðstjóri netöryggissveitarinnar CERT-ÍS. mbl.is/Kristinn Magnússon

Erlendir svikahrappar geta nú þóst hringja úr íslenskum símanúmerum til þess að reyna að klekkja á fólki. Slík símtöl bárust landsmönnum til dæmis nú um helgina.

Guðmundur Arnar Sigmundsson, sviðsstjóri öryggissveitar CERT-IS, segir svindlherferðirnar koma í lotum og nú virðist áhersla vera lögð á þessa aðferð en fjölgun hafi orðið á tilfellum í öllum gerðum svindlmála.

„Núna þykjast þeir vera tæknimenn frá Microsoft en það er alveg hægt að beita sömu aðferð og þykjast vera í forsvari fyrir hvaða félag sem er. Svo er rosa erfitt að verjast þessu því í raun kemur símtalið að utan, er útlenskt númer, en menn geta bara með einföldu appi falsað númerið sem þetta er að koma frá og látið það líta út eins og hvaða íslenskt númer sem er.

Í rauninni er ekkert sem við höfum heyrt af enn þá sem fjarskiptafélögin geta gert til þess að stoppa þetta en við erum svona að kanna það með þeim,“ segir Guðmundur í samtali við Morgunblaðið.

Ábyrgðin sett í hendur fórnarlamba

„Til þess að verjast þessu er ábyrgðin svolítið sett í hendur fórnarlamba. Það þarf að beita því sem maður hefur alltaf kallað heilbrigða tortryggni. Ef einhver, sérstaklega enskumælandi aðili, er að hringja í ykkur, sama hvort það kemur frá íslensku númeri eða erlendu og er að óska eftir einhverjum aðgangi eða láta ykkur gera eitthvað sem veitir aðgeng inn í tölvukerfi, að sannreyna upprunann. Best væri þá bara að hringja á eigin forsendum í aðilann sem hann þykist vera,“ segir hann ennfremur.

„Ef þú myndir skella á viðkomandi og hringja í sama númer til baka þá myndirðu ekki ná sambandi við þennan aðila því að á bak við aðilann er í rauninni erlent númer. Þannig að þú myndir kannski hringja í einhvern Íslending af handahófi sem er með þetta númer sem þeir völdu, þú fengir bara rangt númer.“

Guðmundur segir þessa aðferð sérstaklega leiðinlega þar sem erfitt sé fyrir fjarskiptafyrirtækin að stoppa þetta. Hann hvetur fólk til þess að tilkynna öll tilfelli símasvika til CERT-IS.

„Við óskum eftir að fá tilkynningar um öll svona mál til okkar í gegnum vefsíðuna, þar er tilkynningartakki, eða senda okkur tölvupóst á cert@cert.is.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka