Þórarinn Ingi Pétursson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis og þingmaður Framsóknarflokksins, á 0,8% hlut í Búsæld ehf., sem á rúmlega 43% hlutafjár í Kjarnafæði Norðlenska hf.
Eins og mbl.is greindi frá í gær hafa hluthafar í Kjarnafæði Norðlenska hf. samþykkt tilboð Kaupfélags Skagfirðinga um kaup á allt að 100% hlutafjár í Kjarnafæði Norðlenska hf.
Þórarinn segist ekki hafa íhugað að lýsa yfir vanhæfi er atvinnuveganefnd lagði til umdeildar breytingar á búvörulögum, sem gera umrædd kaup möguleg.
Meirihluti atvinnuveganefndar lagði fram þessar breytingar á síðasta þingi, en þær fela í sér undanþágu afurðastöðva í kjötiðnaði frá samkeppnislögum sem gerir þeim auðveldara fyrir að sameinast. Lögin voru samþykkt í mars.
Spurður hvort hann hafi íhugað að lýsa sig vanhæfan í málinu segir Þórarinn það ekki hafa komið til greina. Það hafi legið fyrir síðan hann tók sæti á Alþingi að hann og kona hans ættu 0,8% hlut í Búsæld ehf. Hann segir það hafa verið skráð í hagsmunaskrá hans á vef Alþingis.
„Nei, það kom aldrei til. Þetta lá fyrir allan tímann, að við hjónin ættum þennan eignarhlut í þessu eignarhlutafélagi sem á í Kjarnafélagi Norðlenska,“ segir Þórarinn í samtali við mbl.is.
Hluthafar Búsældar ehf. munu ákveða hver fyrir sig hvort þeir selji sína hluti. Þórarinn segir þau hjónin eiga eftir að taka ákvörðun um hvort þau selji sinn hlut.