Tvær vinsælar búðir opna brátt aftur

Tjón varð í þrjátíu verslunum Kringlunnar í brunanum 15. júní.
Tjón varð í þrjátíu verslunum Kringlunnar í brunanum 15. júní. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum bara komin í fullan gír, ef svo má segja, en auðvitað söknum við verslana sem hafa lokað,“ segir Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar. Að hennar sögn munu tvær búðir, sem urðu fyrir tjóni í bruna í verslunarmiðstöðinni, mögulega opna aftur í vikunni.

„Það eru enn um það bil tíu verslanir sem þurfa lengri tíma,“ segir Baldvina í samtali við mbl.is. Útskýrir hún að í þeim búðum hafi tjón verið svo mikið að ekki verði hægt að opna þær fyrr en í haust.

Tvær vinsælar búðir opna bráðlega

Spurð hvaða búðir opni mögulega í vikunni segist Baldvina ekki geta upplýst um það.

„Við getum ekki sett þannig viðbótarpressu á þessa aðila,“ segir hún og bætir við að þegar búðirnar verða opnaðar muni Kringlan tilkynna það.

„En ég get sagt að þetta eru vinsælar búðir,“ segir hún.

Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar.
Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar. Eyþór Árnason

Brátt búið að opna tæpan helming

Þrjátíu búðum þurfti að loka vegna brunans sem varð í Kringlunni 15. júní en að sögn Baldvinu á enn eftir að opna átján búðir. Nefnir hún að búið verði að opna tæpan helming búðanna, sem urðu fyrir tjóni, þegar búðirnar tvær fyrrnefndu verða opnaðar.

„Það er lögð ofuráhersla á að opna aftur, það er náttúrulega bara algjört forgangsatriði,“ segir hún og bætir við: “Við erum að gera allt sem við getum til að aðstoða rekstraraðila með að geta opnað sem allra fyrst.“

Under Armour og Dressmann opna brátt

Baldvina hefur orð á að á vef Kringlunnar sé listi yfir verslanir sem eru lokaðar.

„Við að sjálfsögðu uppfærum hann daglega og fögnum gríðarlega þegar við getum strokað út,“ segir hún.

Á listanum, eins og hann er í dag, kemur fram að búðirnar Dressmann og Under Armour opni á næstu dögum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert