„Veðurguðirnir voru með okkur í liði“

Landsmót hestamanna 2024 var haldið í Víðidal í Reykjavík.
Landsmót hestamanna 2024 var haldið í Víðidal í Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

Einar Gíslason, framkvæmdastjóri Landsmóts hestamanna 2024, segir mótið í ár hafa gengið vonum framar. Það fór fram í Víðidal í Reykjavík dagana 1.-7.júlí. 

Fór fram að mestu leyti áfallalaust

„Veðurguðirnir voru með okkur í liði og það var margt um manninn hérna,“ segir Einar í samtali við mbl.is.  

Þá segir hann viðburðinn hafa að mestu leyti gengið smurt fyrir sig.  „Það var náttúrulega mjög fjölmennt hérna á laugardeginum og brekkan smeisafull af fólki.“ 

Margt var um manninn og mættu margir í dalinn á …
Margt var um manninn og mættu margir í dalinn á laugardaginn. mbl.is/Árni Sæberg

Þegar dagskrá lauk á vellinum á laugardag var ball í Reiðhöllinni í Víðidall. „Það var eins þar, margt um manninn og mikil gleði. Þetta fór að mestu fram áfallalaust fyrir sig.“

Hann segir einhver minniháttar atvik hafa átt sér stað, en þau hafi verið svo smávægileg að hægt var leysa úr þeim á staðnum. 

„Blóð, sviti og tár“

Aðspurður hvernig gekk að skipuleggja mótið segir Einar það á heildina litið hafa gengið vel, þótt leysa hafi þurft úr ýmsum flækjum af og til. 

„Það fer náttúrulega blóð, sviti og tár í undirbúning á svona móti, og hvað þá í það að geta tekið á móti þeim tæplega átta þúsund manns sem leggja leið sína í Víðidalinn." 

Í gær fór verðlaunaafhendingin fram með tilheyrandi pompi og prakt, en úrslitin voru sýnd í beinni útsendingu á RÚV, og það í fyrsta sinn.

„Með þessu hefur aðgengi fólks að landsmótinu verið aukið og getur fólk fylgst með hluta mótsins eða jafnvel á mótið í heild sinni, heima hjá sér.“

Hestaáhugafólk, jafnt sem margir aðrir, lagði leið sína á mótið.
Hestaáhugafólk, jafnt sem margir aðrir, lagði leið sína á mótið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áður en verðlaunaafhending fór fram lauk mótinu í gær með A-úrslitum í A-flokki, en hann Árni Björn Pálsson bar sigur úr býtum með gæðingshryssuna Álfamær. Var það í fyrsta skipti í sögu Landsmóts sem hryssa vinnur A-flokk. 

Einar segir ekki aðeins hestaáhugafólk hafa mætt á mótið, enda hafi mótið vakið athygli margra, ekki síst vegna stemningunnar á laugardeginum og blíðunnar um helgina. 

„Það var mikið um fallegar myndir og stemningu bæði hér og á samfélagsmiðlum, sem ég held að hafi smitað út frá sér og fengið fólk til að mæta á laugardeginum.“

Strax byrjað að skipuleggja næsta mót

Mótið fer fram á tveggja ára fresti og verður næst árið 2026 haldið á Hólum í Hjaltadal. Einar segir starfsmenn Landsmótsins strax hafa lagt af stað í þá vinnu að skipuleggja næsta mót. 

Eitthvað var um nýjungar á mótinu í ár, en svo dæmi sé tekið var salernisaðstaðan nokkuð betri og snyrtilegri en áður. 

Þá voru leikir af Evrópumóti karla í fótbolta sem fóru fram í vikunni sýndir á stórum skjá, sem Einar segir hafa fengið jákvæðar undirtektir. 

„Þetta gekk frábærlega vel í ár, en auðvitað má alltaf finna eitthvað til að bæta, og við höldum því til haga fyrir næsta mót,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert