Bylgja af hlýju lofti er á leiðinni til landsins úr suðvestri á fimmtudag og er hún ættuð frá Norður-Ameríku, að því er Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur greinir frá á vefnum Blika.is og vitnar þar í kort frá Veðurstofu Íslands.
„Hvöss SV-átt verður að líkindum yfir okkur. Köld háloftalægð í norðri á sinn þátt í að keyra upp vindinn. En hjá okkur verður það engu að síður hlýja loftið sem verður ofan á,“ skrifar hann og nefnir í framhaldinu að gert sé ráð fyrir allt að 50 mm úrkomu í Borgarfjarðardölum á fimmtudag og mögulega líka á föstudag.
„Spá um svokallaðan halavísi úrkomunnar (SOT) er allsvakaleg. Hún tekur mið af aftakaúrkomu sem verður um hásumar á þessum sömu slóðum,“ greinir hann frá.
Hann segir að í kjölfarið muni hlýja bylgjan rísa enn frekar og hægja um leið verulega á sér austur af landinu.
„Hitinn á landinu fer auðveldlega yfir 20 stig um komandi helgi og jafnvel allt frá því á föstudag. Og að þessu sinni verður ekki endilega svo misskipt eftir landshlutum. Þó er nú á mánudagskvöldið spáð um 25 stiga hita og sólskini á bestu stöðum austanlands frá fimmtudegi og fram á laugardag.“
Talar hann um „hinn sér-íslenska hitabylgjuþröskuld“ í þessu samhengi.