Átján ákærðir: Telja sig hafa höfuðpaurinn í haldi

Meinti höfuðpaurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi frá því í apríl …
Meinti höfuðpaurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi frá því í apríl en var ákærður á föstudaginn. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

Átján manns hafa verið ákærðir í máli sem tengist hópi sem er grunaður um innflutning, vörslu, sölu og dreifingu fíkniefna. Þeirra á meðal er höfuðpaur hópsins, að sögn lögreglu. 

Landsréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir meintum höfuðpaur glæpahópsins.

Í gæsluvarðhaldsúrskurðinum kemur fram að ákæra hafi alls verið gefin út á hendur 18 manns þann 5. júlí. Manninum er meðal annars gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot og brot í skipulagðri brotastarfsemi.

Lögreglan hefur í rannsókn sinni lagt hald á fíkniefni, fíknilyf, stera, íblöndunarefni, grammavogir, peninga, peningatalningavélar, höggvopn, stunguvopn, skotvopn og skotfæri. Þá hafa fundust 40 milljónir króna í reiðufé sem taldar eru tengjast rannsókninni.

„Eins og hann væri að reka fyrirtæki“

Lögreglu þykir meintu brotin afar alvarleg og þaulskipulögð. Samkvæmt greinargerð lögreglu réðst lögreglan í umfangsmiklar húsleitir síðasta haust á nokkrum heimilum og uppgötvaði spjallhóp á samskiptaforritinu Signal.

Ríkisútvarpið kveður spjallhópinn nefnast „Sólheimajökull“.

Á Signal-hópnum voru átta manns, allir með leyninöfn, og í raun grunar lögreglu tvo um að stýra hópnum. Að minnsta kosti annar þeirra er í haldi lögreglu.

Lögreglan segir að maðurinn sé yfir allri starfseminni í umræddum söluhóp.

„[Maðurinn] ræddi starfsemina eins og hann væri að reka fyrirtæki,“ er tekið fram í greinargerð lögreglu. Þar kemur fram að meinti höfuðpaurinn hefði að mestu neitað að tjá sig en neitað sök.

Fíkniefni í pottum og fjármunir í pokum

Þá er manninum gefið að sök að hafa skipulagt peningaþvætti. Það á hann að hafa gert með því að láta fjölnotahöldupoka með peningum ganga á milli manna.

Lögregla hafði afskipti af einum manni sem hafði sótt poka sem annar maður hafði skilið eftir og innihélt 12,4 milljónir króna.

Maðurinn sem sótti pokann kvaðst ekkert vita hvað í væri í pokanum, að sögn lögreglu. Maðurinn sem skildi pokann eftir sagðist hafa að átt að flytja hann á milli staða að beiðni meinta höfuðpaursins.

Annar maður var einnig stöðvaður þegar hann var á leið úr landi með um 16,1 milljón króna í reiðufé í farangri.

„Í annarri skýrslutöku skýrði [maðurinn sem var á leið úr landi] frá því að hann hefði fengið val, annaðhvort borgaði hann fíkniefnaskuld upp á 900.000 krónur eða að hann færi með þessa peninga úr landi,“ segir í úrskurðinum.

Flest­ir sak­born­ing­anna voru hand­tekn­ir í aðgerðum lög­reglu um miðjan apríl, en þá stóð hóp­ur­inn fyr­ir komu tveggja manna sem fluttu fíkni­efni til lands­ins með skemmtiferðaskipi. Fíkni­efn­in voru m.a. fal­in í eld­húspott­um.

Allt að tíu ára fangelsi

Maðurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi frá 11. apríl og sem fyrr segir var hann ákærður á föstudaginn, 5. júlí.

Hann mun að óbreyttu sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, þó ekki lengur en til föstudagsins 2. ágúst 2024.

Landsréttur telur sterkan grun um að hann hafi framið afbrot sem getur varðað tíu ára fangelsi.

Lögreglan lagði hald á mörg kíló af eiturlyfjum.
Lögreglan lagði hald á mörg kíló af eiturlyfjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert