Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um áframhaldandi gæsluvarðhald til 31. júlí yfir karlmanni á fimmtugsaldri vegna hnífstunguárásar í Vesturbænum í janúar síðastliðnum.
Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að maðurinn sé ákærður fyrir að hafa stungið mann á þrítugsaldri í vinstri öxl og hægri síðu með þeim afleiðingum að hann hlaut opið sár á vinstri öxl, opið sár á brjóstkassa og loft- og blóðbrjóst.
Málið var þingfest fyrir héraðsdómi 19. apríl þar sem ákærði mætti og neitaði sök. Þann 24. apríl voru, að beiðni ákærða, dómkvaddir yfirmatsmenn í því skyni að yfirfara fyrra geð- og sakhæfismat sem unnið hafði verið á ákærða.
Þann 1. júlí skiluðu yfirmatsmenn matsgerð sinni og tóku þeir undir niðurstöður matsmanns í undirmati um að maðurinn væri sakhæfur.
„Brotaþoli og vinkona hans lýsa atvikum með þeim hætti að þau hafi veitt ákærða athygli er þau voru á leið heim úr miðbænum þar sem hann hafi gengið á miðri götu og þeim fundist hann vera að stefna sjálfum sér í hættu. Er brotaþoli reyndi að ná sambandi við ákærða hafi ákærði slegið til brotaþola svo höggið kom í öxl hans og stuttu síðar hafi ákærði slegið brotaþola í síðuna. Brotaþoli og vitnið hafi í kjölfarið hlaupið undan ákærða og er þau hafi stoppað hafi þau orðið þess vör að brotaþoli var með stungusár bæði á öxlinni og síðunni,“ segir í úrskurði héraðsdóms.
Sá ákærði sagðist kannast óljóst við að hafa hitt fólk sem hann hafi lent í útistöðum við en taldi það hafa ráðist á sig og stungið sig í höndina.
Á heimili ákærða fannst blóðugur hnífur sem hann kannast við að hafa haft meðferðis umrædda nótt. Einnig fannst skófar sem samsvarar skóm sem hann var handtekinn í og sími hans fannst einnig þar. Á fatnaði brotaþola fannst bæði blóð úr honum sjálfum en einnig af ákærða.
„Fyrir liggur að hin meinta árás var stórháskaleg. Um var að ræða tvær hnífsstungur og áverkarnir voru alvarlegir og hending ein að ekki fór verr. Þá virðist hin meinta árás hafa beinst að brotaþola, sem gangandi vegfaranda, án nokkurs tilefnis þar sem þeir hvorki þekktust né áttu í verulegum samskiptum í aðdragandanum. Að framangreindu virtu verður að telja að hið meinta brot varnaraðila hafi verið mjög alvarlegt og það sé til þess fallið að valda almennum samfélagslegum óróa verði hann látinn laus á þessu stigi,“ segir einnig í úrskurði héraðsdóms.