Fresta kynningu á viðbrögðum við PISA-könnun

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur frestað kynningu aðgerðaáætlunar þar sem bregðast á við slökum niðurstöðum íslenskra grunnskólanema í PISA-könnuninni sem gerð var árið 2022. 

Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.

Kynna átti aðgerðaáætlunina 21. júní til samráðs, að því er fram kom í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins í síðasta mánuði, en kynningunni hefur nú verið frestað fram á haust.

Þá á einnig að kynna 2. aðgerðaáætlun menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030.

Í tilkynningunni var einnig greint frá því að hæfni 15 ára nemenda á Íslandi í skapandi hugsun, sem mæld var í PISA, hefði verið undir meðaltali Framfara- og efnahagsstofnunarinnar (OECD).

Er það í takt við fyrri niðurstöður úr PISA 2022 sem sýna slakan árangur íslenskra unglinga í lesskilningi, stærðfræðilæsi og læsi á náttúruvísindi.

Árangur íslenskra barna þegar kemur að lesskilningi hefur verið á …
Árangur íslenskra barna þegar kemur að lesskilningi hefur verið á niðurleið undanfarinn áratug en lækkar mest í nýjustu PISA-könnuninni sem kynnt var í desember. Graf/Menntamálastofnun

Tengjast aðgerðum í framkvæmd

Í tilkynningunni kom jafnframt fram að ráðuneytið hefði unnið að aðgerðaáætluninni í samstarfi við breiðan hóp hagsmunaaðila til að bregðast við niðurstöðum PISA. Farið yrði yfir niðurstöðurnar í sambandi við skapandi hugsun, aðgerðaáætlunin uppfærð og hún kynnt föstudaginn 21. júní.

Að lokum átti að hrinda aðgerðunum í framkvæmd í innleiðingu 2. áfanga menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 sem kynntur verður í haust.

Ekki varð þó af kynningunni í síðasta mánuði, eins og áður sagði.

Í svari ráðuneytisins segir að aðgerðaáætlunin, sem nú stendur til að kynna í haust, verði hluti af 2. aðgerðaáætlun menntastefnu fyrir árin 2024–2027 enda tengist þær jafnt nýjum aðgerðum menntastefnu sem og aðgerðum menntastefnu sem þegar eru í framkvæmd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka