Helmingurinn mun ekki skilja þetta viðtal

Niðurstöður PISA-könnunar ársins 2022 komu mörgum í opna skjöldu. Mældist árangur íslenskra nemenda undir meðaltali Efnahags- og framfarastofnunarinnar í lesskilningi, stærðfræðilæsi, læsi á náttúruvísindi og skapandi hugsun – nánar tiltekið í öllum þeim flokkum þar sem hæfni íslenskra grunnskólanema var mæld.

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, telur frammistöðuna þó ekki hafa átt að koma Íslendingum á óvart.

Býst hann við enn verri niðurstöðum úr næsta PISA-prófi, sem unglingar þreyta árið 2025. 

Engar breytingar í farvatninu

„Við höfum í raun verið á niðurleið frá aldamótum með lítilli undantekningu árið 2009 þegar við hækkuðum aðeins. En reglan hefur verið að það hefur verið skipbrot í eiginlega hvert sinn sem PISA-niðurstöðurnar koma,“ segir Jón Pétur og bætir við:

„Þar sem við höfum eiginlega ekki breytt neinu síðan um aldamótin í stefnu í skólamálum þá verður niðurstaðan bara sú sama, og verri og verri og verri, og næst 2025 af því að það eru engar breytingar í farvatninu núna, þá verður niðurstaðan líklega enn verri en núna – þrátt fyrir að það sé varla hægt.“

Að sögn Jóns Péturs er þetta eitt stærsta aðkallandi málið sem steðjar að íslensku þjóðinni.

Notum of flókin hugtök

Segir hann algeng orð á borð við vexti og verðbólgu gjarnan flækjast fyrir nemendum sem geri það að verkum að þeir skilji oft ekki fréttaumfjallanir. Er það sá orðaforði sem skólum ber að kenna nemendum.

„Vegna þess að það er helmingur drengja og einn þriðji stúlkna sem skilur ekki einfaldan upplýsingatexta. Þannig það sem við erum að tala um hér, helmingur drengja sem útskrifast úr grunnskóla – þeir skilja ekki það sem við erum að tala um vegna þess að við notum of flókin hugtök og orðaforðinn þeirra nær ekki utan um það sem við erum að tala um,“ segir Jón Pétur.

„Þetta er svona hærra stigs orðaforði. Og til að skilja texta þá þarftu að skilja 97 til 98 prósent orðanna í textanum, annars nærðu ekki innihaldinu.“

Áskrifendur geta hlustað á viðtalið við Jón Pétur í heild sinni:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka