Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segist ekki hafa kynnt sér gervigreindarþýðingar ríkisútvarpsins.
Greinarnar eru hluti af samstarfi sem nefnist „evrópskt sjónarhorn“ og er á vegum Eurovision. Tuttugu miðlar frá 17 löndum taka þátt í verkefninu og gera greinar sínar aðgengilegar öðrum þátttakendum.
„Gervigreindin er mesta tæknibylting sem hefur átt sér stað síðan við fórum að nota veraldarvefinn. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að vera fremst meðal þjóða til þess að kynna okkur gervigreindina, nýta hana til þess að auka framleiðni og gera hlutina betur,“ segir Lilja.
Hún segir að það þurfi að fara vel yfir það sem komi frá gervigreindinni og persónulega segist hún nota hana mikið þegar hún er spyrjast fyrir um alls konar hluti.
„Ég er jákvæð í garð þess að við séum að nýta gervigreindina og ég tel að til framtíðar verði flest fyrirtæki og einstaklingar á Íslandi sem muni nýta sér gervigreindina. Hún er jákvæð fyrir fámenna þjóð eins og okkur Íslendinga. Við erum þokkalega tæknilæs og ég tel að við séum búin að gera gott með því að koma tungumálinu okkar að í þessi helstu gervigreindarforrit.“