Landris undir Svartsengi heldur áfram og er það búið að vera á svipuðum hraða síðustu daga. Gervitunglamynd frá Sentinel 1 dagana 25. júní til 7. júlí sýnir sama mynstur. Líkanreikningar benda áfram til að kvikuinnstreymi sé meira nú en fyrir eldgosið 29. maí. Áfram benda þessi gögn til að annað kvikuhlaup og/eða eldgosi sé líklegt á næstu vikum eða mánuðum.
Hættumat á svæðinu hefur verið uppfært og helst það nánast óbreytt en hætta vegna hraunflæðis við Svartsengi hefur minnkað. Hætta færist þvi niður úr töluverð hætta (appelsínugul) í nokkur (gul). Hættumatið gildir til 16. júlí, að öllu óbreyttu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Mælst hafa tæplega 20 jarðskjálftar yfir kvikuganginum í liðinni viku. Sá stærsti mældist 1,3 að stærð vestan við Grindavíkurbæ. Virknin er svipuð og hefur verið síðustu tvær vikur.
Rúmlega 260 jarðskjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga í liðinni viku, þar af um 60 í Lambafelli í Þrengslum, um tugur í Brennisteinsfjöllum. Rúmir 100 skjálftar mældust umhverfis Kleifarvatn. Rétt tæplega 40 jarðskjálftar mældust í Fagradalsfjalli, allir undir einum að stærð og flestir á 7 til 10 km dýpi. Um 20 skjálftar mældust úti við Reykjanestá í liðinni viku og annar tugur skjálfta lengra úti á Reykjaneshrygg um 90 km suðvestur frá landi, að því er segir í tilkynningunni.