Óljóst hvort ákæra verði gefin út áður en farbanni lýkur

Rannsókn máls Quang Lé eða Davíðs Viðarssonar miðar vel. Hann …
Rannsókn máls Quang Lé eða Davíðs Viðarssonar miðar vel. Hann gengur nú laus en er í farbanni. Gott utanumhald er um fórnarlömb hans. Samsett mynd/Eggert Jóhannesson

Enn hefur engin ákæra verið gefin út á hendur Quang Lé í tengslum við umfangsmikla rannsókn lögreglu á mansali. Þetta staðfestir Hildur Sunna Pálma­dótt­ir, aðstoðarsak­sókn­ari hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu.

Quang Lé, eða Davíð Viðarsson, hefur verið laus úr gæsluvarðhaldi síðan 14. júní en sætir þó tólf vikna farbanni.

Rannsókninni miðar vel

„Það er erfitt að segja til um það, þetta er mjög flókið og umfangsmikið mál,“ segir Hildur, spurð hvenær megi vænta að rannsókn ljúki. Hún bætir þó við að rannsókninni miði vel áfram.

„Það eru alls konar flækjustig í þessu sem gerir það að verkum að þetta tekur lengri tíma en venjulega, eins og tungumálið og fjöldi brotaþola og sakborninga, líka fjöldi haldlægra muna. Þetta mun taka sinn tíma út af þessu,“ bætir Hildur við.

Öll fórnarlömb með réttargæslumenn

Spurð hvort lögreglan hafi komið á fót sérstöku úrræði fyrir fórnarlömbin nú þegar Quang Lé gengur laus, segir Hildur að svo sé ekki heldur séu nú þegar úrræði sem duga.

„Félagsþjónustan er búin að vera í mjög góðum samskiptum við fórnarlömbin og Bjarkarhlíð líka. Þau [fórnarlömbin] hafa verið á reglulegum fundum frá því aðgerðin átti sér stað með þessum aðilum. Þau hafa líka mjög góðan aðgang að þjónustu og auðvitað eru þau öll með réttargæslumenn líka,“ bætir hún við.

Fórnarlömbunum líður betur

„Þeim líður mun betur, af því sem ég hef heyrt,“ segir Hildur um líðan fórnarlambanna.

Spurð hvort þau reyni að stefna að því að ljúka rannsókn áður en farbanni Quang Lé lýkur, segir Hildur ómögulegt að segja.

„Það eru margar rannsóknaraðgerðir sem við höfum ekki áhrif á, eins og réttarbeiðni erlendis og þýðingu gagna frá víetnömsku yfir á íslensku. Þannig að það eru margar breytur sem erfitt er að segja til um tímafaktorinn á,“ segir Hildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert