Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtakanna, segir mikinn styrk fyrir bændur að hafa bónda á Alþingi sem berst fyrir hagsmunum þeirra. Hann telur allt hafa verið upp á borðinu varðandi eignarhlut Þórarins Inga Péturssonar í Búsæld ehf.
Þórarinn Ingi er þingmaður Framsóknarflokksins og formaður atvinnuveganefndar Alþingis.
Hann á 0,8% hlut í Búsæld ehf., sem á rúmlega 43% hlutafjár í Kjarnafæði Norðlenska hf. Hluthafar í Kjarnafæði Norðlenska hf. hafa nú samþykkt tilboð Kaupfélags Skagfirðinga um kaup á allt að 100% hlutafjár í Kjarnafæði Norðlenska hf.
Kaupin eru möguleg vegna nýrra búvörulaga sem voru samþykkt í mars. Þau fela meðal annars í sér undanþágu afurðastöðva í kjötiðnaði frá samkeppnislögum sem gerir þeim auðveldara fyrir að sameinast, en sú tillaga kom frá meirihluta atvinnuveganefndar.
Aðkoma Þórarins Inga að málinu hefur verið gagnrýnd. Í samtali við mbl.is í gær sagði Þórarinn að það hefði legið fyrir síðan hann tók sæti á Alþingi að hann og kona hans ættu 0,8% hlut í Búsæld. Það komi fram í hagsmunaskrá hans á vef Alþingis.
„Ég hef ekki orðið var við það að hann hafi á nokkurn hátt verið að reyna fela sinn bakgrunn, hver hann er eða hvaðan hann kemur. Það er mat alþingismanna hverju sinni hvort þeir séu vanhæfir eða ekki. Ef að hagsmunaskráningin er í lagi þá voru allir upplýstir um hans stöðu,“ segir Trausti.
Þá segir hann mikilvægt að ólíkir einstaklingar með ólíkan bakgrunn sitji á Alþingi.
„Það er mikilvægt að á Alþingi Íslendinga sitji fólk úr ólíkum greinum atvinnulífsins. Það að bændur skuli hafa þann styrkleika að geta haft fulltrúa á þingi til að berjast fyrir sínum hagsmunum er mikilvægt fyrir landbúnaðinn.“