Segist standa við bakið á Skagamönnum

Guðlaugur Þór Þórðarson ásamt bæjarstjóra Akraneskaupstaðar, Haraldi Benediktssyni.
Guðlaugur Þór Þórðarson ásamt bæjarstjóra Akraneskaupstaðar, Haraldi Benediktssyni. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er náttúrulega gríðarlegt áfall upp á Skaga út af gjaldþroti 3X og fleiru og við viljum sýna það mjög skýrt að við stöndum við bakið á Skagamönnum.“

Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra, sem hefur undirritað viljayfirlýsingu við Akraneskaupstað um að stuðla að því að hluti starfstöðva, sem heyri undir ráðuneytið og stofnanir þess, verði á svokölluðum Sementsreit við Mánagötu 20. 

Við undirritun viljayfirlýsingarinnar.
Við undirritun viljayfirlýsingarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Sérstaklega mikilvægt

„Það er viljayfirlýsing þar sem við lýsum áhuga á að taka þátt í þessari stjórnsýslubyggingu því við ætlum að styrkja starfsemina á Akranesi,“ segir ráðherrann í samtali við mbl.is. 

Hann segir ráðuneytið lengi hafa sýnt því áhuga að halda úti starfstöðvum á Sementsreit en það sé sérstaklega mikilvægt að gefa þau skilaboð í ljósi hópuppsagna hjá 3X og starfsfólki Skútunnar - þjónustustöðvar N1.

Stefnt er að því að þar rísi bygging sem rúmi ráðhús Akranesskaupstaðar og mögulega fleiri stofnanir Sveitarfélagsins.

Í yfirlýsingunni segir að gert sé ráð fyrir að unnið verði að verkefninu, auk Akraneskaupstaðar, í samvinnu við önnur ráðuneyti, Framkvæmdasýslu - ríkiseignir og fleiri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert