SKE vill breytingar á nýbreyttum búvörulögum

Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins skrifaði undir umsögn eftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins skrifaði undir umsögn eftirlitsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samkeppniseftirlitið (SKE) telur brýnt að matvælaráðuneytið beiti sér fyrir breytingum á nýsettum undanþáguheimildum í búvörulögum til þess að koma í veg fyrir tjón sem af þeim getur hlotist fyrir bændur og neytendur.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn eftirlitsins við erindi Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna breytinga á búvörulögunum.

Uppfylla ekki skuldbindingar ríkisins

Með lögunum var framleiðendafélögum veitt undanþága frá samkeppnislögum og þeim veitt heimild til þess að meðal annars hafa samstarf sín á milli til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara.

Samkeppniseftirlitið segir í umsögn sinni að það telji að búvörulögin uppfylli ekki þær skuldbindingar sem íslenska ríkið hefur undirgengist og megi leiða af EES-samningnum. Undanþáguheimildirnar gangi mun lengra en þær sem eru í Noregi.

Í umsögninni segir eftirlitið að munurinn á norsku undanþágunni og þeirri sem tók gildi nýverið sé sá að í Noregi var veitt undanþága frá tilteknum ákvæðum samkeppnislaganna en ekki lögunum í heild sinni eins og á Íslandi. Jafnframt taki undanþágan ekki til banns við misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

Ónákvæmar og óskýrar undanþáguheimildir 

Eftirlitið segir að undanþáguheimildirnar séu í núverandi mynd ónákvæmar og óskýrar. Engar takmarkanir eða varnagla sé að finna um hvaða vörur eða þjónustu heyri undir undanþáguheimildirnar eða hvernig virkni þeirra sé í tilvikum þar sem afurðastöðvar stundi viðskipti með vörur sem falla bæði innan og utan gildissvið EES-samningsins.

Samtök fyrirtækja í landbúnaði birti álitsgerð sem dr. Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins, vann og kom þar fram að Ísland hefði fullt frelsi til að setja eigin reglur um framleiðslu og vinnslu kjötafurða og annarra afurða sem eru undanskilin EES-samningnum.

Kaupfélag Skagfirðinga tilkynnti á sunnudag um kaup félagsins á félaginu Kjarnafæði Norðlenska hf. Ágúst Torfi Hauksson, forstjóri Kjarnafæðis Norðlenska, sagði í tilkynningu um kaupin að viðskiptin væru rökrétt framhald af breytingunum á búvörulögunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert