Heimilislæknir sem varð fyrir líkamsárás á meðan hann var í vinnunni og laut í lægra haldi í héraði gegn íslenska ríkinu mun líklega áfrýja sýknudómnum.
Þetta segir Snorri Stefánsson, lögmaður heimilislæknisins, í samtali við mbl.is.
Málsatvik eru þau að læknirinn var á vakt á heilsugæslustöð árið 2021 þegar árásarmaðurinn kom og óskaði eftir að hitta hann til að fá morfínlyf. Maðurinn hafði komið deginum áður í sömu erindagerðum og kvaðst læknirinn ekki geta ávísað morfínlyfjum í bæði skipti.
Eftir að maðurinn fór hélt læknirinn áfram að taka á móti sjúklingum en þegar hann kallaði á síðasta sjúklinginn hafi maðurinn verið búinn að stilla sér upp í ógnandi stellingum í dyragætt að biðstofunni. Hann hótaði lækninum að fengi hann ekki lyfið kæmi hann heim til hans og „berði hann í klessu“.
Svör læknisins voru þau sömu og áður, hann fengi ekki ávísun. Þá óð maðurinn að honum frussandi með brjóstið fram. Læknirinn vildi ekki fá munnvatn mannsins vegna þess að hann var smitaður af sjúkdómi sem hann kærði sig ekki um að fá og setti því lófann sinn að manninum til að skýla sig.
Þá spurði maðurinn hvort læknirinn væri að kýla sig og kýldi lækninn þá skyndilega í hægra eyrað. Hann hentist á vegg og skallaði gólfið og vankaðist við þetta. Þegar hann náði áttum var maðurinn farinn.
Læknirinn gerði kröfu um viðurkenningu skaðabótaskyldu íslenska ríkisins á grundvelli kjarasamnings ríkissjóðs og Læknafélags íslands en ríkið hafnaði því.
Í bréfi ríkisins til læknisins segir að skilyrði fyrir bótaábyrgð sé að starfsmaður sé „að sinna“ einstaklingi og að hann hafi takmarkaða eða enga stjórn á gerðum sínum. Ríkið hafnaði bótaskyldu á þeim rökum að læknirinn hafi ekki verið að sinna manninum þegar atvikið átti sér stað.
Læknirinn byggði á því í málinu að ákvörðun ríkisins hafi verið haldin annmörkum og af þeim sökum skyldi hún ógild. Taldi hann að um væri að ræða stjórnvaldsákvörðun sem byggði á rangri túlkun á kjarasamningnum. Íslenska ríkið hafnaði því að um stjórnvaldsákvörðun hafi verið að ræða og krafðist sýknu.
Í niðurstöðukafla dómsins kemur fram að skilyrði um að læknirinn hafi verið „að sinna“ sjúklingnum hafi verið uppfyllt. Aftur á móti var ekki talið að maðurinn hafi ekki haft stjórn eða takmarkaða stjórn á gerðum sínum.