Þörf á heilsárs markaðssetningu

„Við leggj­um áherslu á það í takt við ný­samþykkta ferðamála­stefnu …
„Við leggj­um áherslu á það í takt við ný­samþykkta ferðamála­stefnu að það sé þörf á heils­árs neyt­enda markaðssetn­ingu í takt við það sem önn­ur ríki gera,“ seg­ir Lilja. mbl.is/Sigurður Bogi

„Árið í ferðaþjónustunni byrjaði vel og við sáum að ferðamönnum fjölgaði á fyrstu mánuðum ársins en við höfum fundið fyrir samdrætti í maí og júní.“

Þetta segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, við mbl.is en blikur eru á lofti í ferðaþjónustunni. Bókunarstaða hótela er til að mynda ekki eins góð og búist hafði verið við en fjöldi gistinátta á hótelum var 7,1% minni í maí samanborið við maí í fyrra.

Lilja segir að vel sé fylgst með stöðunni bæði hvað varðar fjölda ferðamanna ásamt gistináttum og að vísbendingar séu um samdrátt í kortunum.

Noregur ver margfalt meira í markaðssetningu

„Við leggjum áherslu á það í takt við nýsamþykkta ferðamálastefnu að það sé þörf á heilsárs neytenda markaðssetningu í takt við það sem önnur ríki gera. Noregur til að mynda ver átta til tíu sinnum meira í markaðssetningu á Noregi og vetrarferðamennsku heldur en við,“ segir Lilja.

Lilja telur brýnt að farið verði út í markaðssetningu á heilsárs grundvelli en hún bendir á að ferðaþjónustan sé 8,8 prósent af vergri landsframleiðslu og 32 prósent af gjaldeyristekjum komi í gegnum ferðaþjónustuna.

„Ferðaþjónustan er ein af okkar mikilvægustu atvinnugreinum og ef við sjáum samdrátt í henni þá getur það haft þjóðhagslegar afleiðingar í för með sér. Við höfum skoðað vel bókunarstöðu fram í tímann og þar eru líka vísbendingar um samdrátt,“ segir Lilja.

Bætur hún við að staðan verði tekin aftur þegar júní og júlí tölurnar komi fram. Hún segir að það sé ákvörðun og fjárfesting til framtíðar að fara út í heilsárs neytenda markaðssetningu sem hún styðji heilshugar.

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Á ekki við nein rök að styðjast

Í vor bárust fréttir af því að margir ferðamenn hefðu afbókað eða fært ferðir sínar til landsins í sumar af ótta við yfirvofandi eldgos á Reykjanesskaga.

Spurð hvort jarðhræringarnar og eldsumbrotin á Reykjanesskaganum séu að hafa áhrif á fækkun ferðamanna til landsins segir Lilja:

„Já, það gerir það. Betur borgandi ferðamenn hafa haft áhyggjur af því að þeir hreinlega festist á Íslandi en það á ekki við nein rök að styðjast vegna þess að það hafa ekki orðið neinar tafir í millilandafluginu í tengslum við jarðhræringarnar.

Ráðherra segir að skilaboðunum verði að koma betur á framfæri til að slá af þennan ótta og eitt af því sem verið er að gera er stofnun vinnuhóps fyrir ferðaþjónustuna um það hvernig sé hægt að nálgast Reykjanesið á öruggan hátt fyrir innlenda og erlenda ferðamenn.

„Það er auðvitað náttúruvá og kvikusöfnun er aftur hafin undir Svartsengi en á móti kemur þá þurfum við að lifa með þessu og að mínu mati á að kynna Ísland sem öruggan og spennandi áfangastað og það verður leiðarstefið í því sem við viljum gera á næstu misserum,“ segir Lilja Dögg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert