Þörf á heilsárs markaðssetningu

„Við leggj­um áherslu á það í takt við ný­samþykkta ferðamála­stefnu …
„Við leggj­um áherslu á það í takt við ný­samþykkta ferðamála­stefnu að það sé þörf á heils­árs neyt­enda markaðssetn­ingu í takt við það sem önn­ur ríki gera,“ seg­ir Lilja. mbl.is/Sigurður Bogi

„Árið í ferðaþjón­ust­unni byrjaði vel og við sáum að ferðamönn­um fjölgaði á fyrstu mánuðum árs­ins en við höf­um fundið fyr­ir sam­drætti í maí og júní.“

Þetta seg­ir Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, við mbl.is en blik­ur eru á lofti í ferðaþjón­ust­unni. Bók­un­arstaða hót­ela er til að mynda ekki eins góð og bú­ist hafði verið við en fjöldi gistinátta á hót­el­um var 7,1% minni í maí sam­an­borið við maí í fyrra.

Lilja seg­ir að vel sé fylgst með stöðunni bæði hvað varðar fjölda ferðamanna ásamt gistinátt­um og að vís­bend­ing­ar séu um sam­drátt í kort­un­um.

Nor­eg­ur ver marg­falt meira í markaðssetn­ingu

„Við leggj­um áherslu á það í takt við ný­samþykkta ferðamála­stefnu að það sé þörf á heils­árs neyt­enda markaðssetn­ingu í takt við það sem önn­ur ríki gera. Nor­eg­ur til að mynda ver átta til tíu sinn­um meira í markaðssetn­ingu á Nor­egi og vetr­ar­ferðamennsku held­ur en við,“ seg­ir Lilja.

Lilja tel­ur brýnt að farið verði út í markaðssetn­ingu á heils­árs grund­velli en hún bend­ir á að ferðaþjón­ust­an sé 8,8 pró­sent af vergri lands­fram­leiðslu og 32 pró­sent af gjald­eyris­tekj­um komi í gegn­um ferðaþjón­ust­una.

„Ferðaþjón­ust­an er ein af okk­ar mik­il­væg­ustu at­vinnu­grein­um og ef við sjá­um sam­drátt í henni þá get­ur það haft þjóðhags­leg­ar af­leiðing­ar í för með sér. Við höf­um skoðað vel bók­un­ar­stöðu fram í tím­ann og þar eru líka vís­bend­ing­ar um sam­drátt,“ seg­ir Lilja.

Bæt­ur hún við að staðan verði tek­in aft­ur þegar júní og júlí töl­urn­ar komi fram. Hún seg­ir að það sé ákvörðun og fjár­fest­ing til framtíðar að fara út í heils­árs neyt­enda markaðssetn­ingu sem hún styðji heils­hug­ar.

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Lilja Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Þ​or­geir Bald­urs­son

Á ekki við nein rök að styðjast

Í vor bár­ust frétt­ir af því að marg­ir ferðamenn hefðu af­bókað eða fært ferðir sín­ar til lands­ins í sum­ar af ótta við yf­ir­vof­andi eld­gos á Reykja­nesskaga.

Spurð hvort jarðhrær­ing­arn­ar og elds­um­brot­in á Reykja­nesskag­an­um séu að hafa áhrif á fækk­un ferðamanna til lands­ins seg­ir Lilja:

„Já, það ger­ir það. Bet­ur borg­andi ferðamenn hafa haft áhyggj­ur af því að þeir hrein­lega fest­ist á Íslandi en það á ekki við nein rök að styðjast vegna þess að það hafa ekki orðið nein­ar taf­ir í milli­landa­flug­inu í tengsl­um við jarðhrær­ing­arn­ar.

Ráðherra seg­ir að skila­boðunum verði að koma bet­ur á fram­færi til að slá af þenn­an ótta og eitt af því sem verið er að gera er stofn­un vinnu­hóps fyr­ir ferðaþjón­ust­una um það hvernig sé hægt að nálg­ast Reykja­nesið á ör­ugg­an hátt fyr­ir inn­lenda og er­lenda ferðamenn.

„Það er auðvitað nátt­úru­vá og kviku­söfn­un er aft­ur haf­in und­ir Svartsengi en á móti kem­ur þá þurf­um við að lifa með þessu og að mínu mati á að kynna Ísland sem ör­ugg­an og spenn­andi áfangastað og það verður leiðar­stefið í því sem við vilj­um gera á næstu miss­er­um,“ seg­ir Lilja Dögg.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka