Þrotabú Fréttablaðsins laut í lægra haldi í héraði

Torg ehf. sem gaf út Fréttablaðið var tekið til gjaldþrotaskipta …
Torg ehf. sem gaf út Fréttablaðið var tekið til gjaldþrotaskipta á síðasta ári. mbl.is/Kristinn Magnússon

JSB dreifing ehf. hefur verið sýknað af kröfum þrotabús Torgs ehf., sem gaf meðal annars út Fréttablaðið, um greiðslu upp á 1,2 milljónir króna.

Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem birtist í dag.

Þrotabúið vildi rifta greiðslu Torgs ehf. til JSB dreifingar ehf. sökum þess að greiðslan, sem nam 1,2 milljónum króna, hefði á ótilhlýðilegan hátt verið JSB dreifingu ehf. til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa þrotabúsins.

Greiddu reikning daginn fyrir gjaldþrotaskiptabeiðni

Málsatvik eru þau að JSB dreifing ehf. sá um dreifingu Fréttablaðsins á Reykjanessvæðinu og í Hafnarfirði. Félögin gerðu verktakasamning sem kvað á um að JSB dreifing ehf. ætti að fá greiddar 950 þúsund krónur fyrir hvern mánuð auk virðisaukaskatts fyrir dreifinguna.

Tekist var á um reikning sem JSB dreifing ehf. gaf út 21. mars 2023 með gjalddaga 2. apríl vegna dreifingar á Fréttablaðinu. Reikningurinn nam tæpum 1,2 milljónum króna og greiddi Torg ehf. reikninginn 3. apríl klukkan 12.53.

Nokkrum dögum áður en reikningurinn var greiddur, nánar tiltekið 31. mars 2023, var starfsmönnum Torgs ehf. tilkynnt um að starfsemi félagsins yrði hætt og það tekið til gjaldþrotaskipta. Héraðsdómi Reykjavíkur barst beiðni um gjaldþrotaskipti 4. apríl 2023.

Ósannað að félagið vissi af ógjaldfærni og skuldahala

Í niðurstöðukafla dómsins segir að greiðslan er bersýnilega til hagsbóta JSB dreifingar ehf. á kostnað annarra kröfuhafa. Aftur á móti til að greiðslan teljist ótilhlýðileg og riftanleg verði fyrirsvarsmaður JSB dreifingar ehf. að hafa haft vitneskju um ógjaldfærni Torgs ehf.

Niðurstaða dómsins var sú að JSB dreifing ehf. hafi ekki geta haft vitneskju um taprekstur og skuldahala Torgs ehf. þegar félagið tók við greiðslunni. Var félagið því sýknað af riftunarkröfu þrotabúsins.

Þrotabúið hefur krafið fleiri um greiðslur og meðal þeirra eru menn sem unnu sem verktakar fyrir félagið.

Sumir hverjir störfuðu sem blaðamenn og sagði Hjálmar Jónsson, þáverandi framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Íslands, í samtali við Morgunblaðið það fráleitt að endurkrefja fólk um verktakalaun sem það hefur unnið fyrir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert