Vantar enn fimmtán metra upp á

Enn vantar 15 metra upp á að vatnshæðin nái meðalhæð …
Enn vantar 15 metra upp á að vatnshæðin nái meðalhæð í byrjun júlí í Hálslóni. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það er frekar lök staða í lónum og vatnsárið hefur verið slakt,“ segir Gunnar Guðni Tómasson, framkvæmdastjóri vatnsafls hjá Landsvirkjun, í samtali við mbl.is.

Landsvirkjun sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem fram kemur að júní hafi verið kaldur og þurr og ekkert hafi bæst við í Blöndulón. Þá hafi hægst á fyllingu Þórisvatns.

Eftir miðjan júní hafi farið að hækka í Hálslóni samfara hækkandi hitastigi en þar vanti enn 15 metra upp á að vatnshæðin nái meðalhæð í byrjun júlí.

„Við fylgjumst mjög vel með tíðarfarinu núna, það skiptir okkur máli hvernig það verður í sumar og haust,“ segir Gunnar.

Hlýindi og úrkoma skipta máli

Síðustu misseri hefur Landsvirkjun þurft að grípa ítrekað til skerðinga á afhendingu á raforku til viðskiptavina vegna lakrar stöðu í lónum.

Sjáið þið fram á að þurfa að skerða afhendingu á raforku til viðskiptavina?

„Það er eitthvað sem við vitum ekki enn þá og kemur bara í ljós þegar það líður inn í haustið. Við erum í frekar lágri stöðu núna, en ef við fáum gott sumar og gott haust þá getur þetta alveg lagast,“ segir Gunnar.

„Það skiptir okkur máli að fá hlýindi og úrkomu, það er það sem við lifum fyrir,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert