Allt að 25 gráður á Austurlandi um helgina

Nóg er um að vera í blíðunni á Austurlandi um …
Nóg er um að vera í blíðunni á Austurlandi um helgina. mbl.is/Freyr

Fjölmargir Íslendingar, jafnt sem erlendir ferðamenn, flykkjast eflaust til Austurlands um helgina, enda er líklegt að hitastigið verði þar um og yfir 20 gráðum, auk þess sem nóg er um að vera á landshlutanum. 

Hlýtt á austur helmingi landsins

Á vef veðurstofu Íslands segir að á laugardaginn sé líklegt að hitinn nái um 25 gráðum við Egilsstaðaflugvöll. 

„Síðan fer hitinn aðeins að síga eftir helgina, þó það verði áfram hlýtt á einhverjum hluta landsins er líklegt að þokubakkarnir fari að landi eftir helgi. En austur helmingur landsins lítur mjög vel út núna næstu dagana,“ segir Þorsteinn V. Jónsson veðurfræðingur í samtali við mbl.is. 

Það er spáð 25 stiga hita nálægt Egilstaðaflugvelli á sunnudag.
Það er spáð 25 stiga hita nálægt Egilstaðaflugvelli á sunnudag. Graf/Veðurstofan.is

Íslendingar virðast hafa tekið eftir veðurbreytingunum á Austurlandi, en mörg hótel og tjaldsvæði hafa fengið fleiri bókanir um helgina en vanalega. 

„Það er mjög góð bókunarstaða hjá okkur, og var það áður en sólin kom. En eftirspurnin hefur vissulega aukist mikið, menn eru mikið að hringja og spurja hvort það sé til gisting um helgina,“ segir Gunnlaugur Jónasson, eigandi Gistihússins á Egilsstöðum, í samtali við mbl.is. 

Nóg af skemmtun um helgina

Þá er nóg um afþreyingu fyrir ferðalanga, en þessa dagana stendur yfir menningar- og listahátíðin Innsævi, sem Fjarðabyggð stendur fyrir. 

Hátíðin er nú haldin í fjórða sinn. Anna Karen Marinósdóttir, verkefnastjóri menningarstofu Fjarðarbyggðar, segir mætinguna hafa verið góða, en hún verði líklegast enn betri um helgina vegna blíðunnar. 

„Það er búið að vera ótrúlega góð stemning hérna, og rosa gott veður, en bærinn lifnar algjörlega við í sólinni,“ segir Anna. 

Hátíðin stendur yfir til 20.júlí, og eru sex viðburðir eftir af þeim tæplega þrjátíu viðburðum sem hafa farið fram frá byrjun júnímánaðar í sveitarfélaginu. 

Svo dæmi sé tekið fer fram um helgina jóga utandyra, bæði í Nesskaupsstað og í Reyðarfirði. Einnig verður leirvinnustofa á laugardaginn og tvennir tónleikar. 

„Við búumst bara við mjög góðri mætingu í þá viðburði sem við eigum eftir, sérstaklega í jógað, enda er það frábært í góða veðrinu.“

Vopnaskak hefst á morgun

Nóg verður um aðra afþreyingu á Austurlandi, en Vopnaskak, bæjar- og fjölskylduhátíð Vopnafjarðar, verður haldin með miklu fjöri um helgina. 

Hátíðin hefst á morgun með kótilettukvöldi, en framundan eru meðal annars tónleikar og sundlaugarpartý á föstudag, listasýning á laugardag og margt fleira skemmtilegt fyrir alla aldurshópa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert