Ánægjulegt að þurfa hvorki að nota byssu né hníf

Stefnt er að riðulausu Íslandi árið 2044. Trausti heldur að …
Stefnt er að riðulausu Íslandi árið 2044. Trausti heldur að það muni takast fyrir það ár. Samsett mynd/Aðsend/Eggert

„Auðvitað er gleðin fyrst og fremst sú að vera komin með eitthvað annað í hendurnar heldur en byssuna og hnífinn til að bregðast við riðunni,“ segir Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtakanna, í samtali við mbl.is.

Í nýrri landsáætlun um útrýmingu riðu sem skrifað var undir á dögunum er lögð áhersla á sæðing­ar til að rækta fjár­stofn sem ber vernd­andi arf­gerðir gegn riðuveiki.

Telur markmiðið nást fyrr en stefnt er að

Áætlunin er til ársins 2044 en Trausti telur að björninn verði unninn fyrir það.

„Ég tel mig vita að sauðfjárbændur verða fljótari að þessu,“ segir hann.

Hann segir að þetta feli einhvern kostnað í sér fyrir bændur en til lengra tíma litið þá verði þetta fljótt að skila sér.

Áætlunin gerir ráð fyrir breyttri nálgun við útrýmingu riðuveiki frá því sem verið hefur, Horft er frá því að reyna að útrýma riðusmitefninu sjálfu en megináhersla lögð á að útrýma veikinni með ræktun fjárstofns sem ber verndandi arfgerðir gegn smitefninu ásamt áframhaldandi aðgerðum til að hefta mögnun og dreifingu þess.

Aflétta höftum á landbúnaðinn

„Það sem áætlunin felur í sér er áætlun um ræktunina en jafnframt áætlun um afléttingu ýmissa hafta sem hafa hvílt á, ekki bara sauðfjárbændum, heldur landbúnaðinum í raun í heild sinni vegna riðuveikinnar,“ segir hann.

Trausti útskýrir að þetta feli meðal annars í sér afléttingu á höftum sem varða samnýtingu tækja og tóla.

„Þá vonandi líka getur það leitt af sér hagkvæmari landbúnað,“ segir hann.

Ábyrgðin á bændum

Trausti segir að það sé mikill hugur og kraftur í bændum að ráðast í verkefnið.

„Ábyrgðin er náttúrlega okkar sjálfra, að sinna þessari ræktun vel og það er gott fyrir okkur að hafa tækifæri til þess að axla ábyrgðina á því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert