„Það eru auðvitað mikil tímamót, 75 ára afmæli varnarbandalagsins og þar af leiðandi er þetta tímamótafundur í sjálfu sér, en hann er auðvitað haldinn í skugga margs konar áskorana, langtímaáskorana og kannski fyrst og síðast meiri háttar breytinga á alþjóðakerfinu. Það gerir það að verkum að fundurinn er gríðarlega mikilvægur.
Það eru miklar væntingar bundnar við hann og það reynir á leiðtogana og Atlantshafsbandalagið um að stórar ákvarðanir verði teknar á þessum fundi og ég geri ráð fyrir að það verði þannig. Þannig höfum við, utanríkisráðherrar og varnamálaráðherrar bandalagsins, undirbúið þennan fund fyrir leiðtogafundinn,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Utanríkisráðherra ræddi við blaðamann mbl.is daginn fyrir leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins, sem haldinn er á höfuðstað Bandaríkjanna, Washington D.C., 9. til 11. júlí.
Þórdís segir samstöðu aðildarríkja bandalagsins mikilvægari en nokkru sinni í aðstæðum sem þeim sem séu uppi á borðinu núna. Þar reyni einnig á þann fælingarmátt sem Atlantshafsbandalagið hafi, þétta samvinnu og skuldbindingar aðildarríkja.
„Þegar að [alþjóðakerfinu] er vegið eins og er núna skiptir höfuðmáli að samstarfsríki sýni það í orði og á borði að þau eru tilbúin að gera það sem þarf til að standa vörð um það.“
Málefni Úkraínu verða, eins og gefur að skilja, í brennidepli á fundinum og segist Þórdís vona að hægt verði að ganga lengra en hafi verið gert á leiðtogafundi í Vilníus í fyrra hvað varðar aðild Úkraínu að bandalaginu. Mikilvægt sé að bið Úkraínumanna styttist en lengist ekki enn frekar.
„Það sem skiptir okkur öll mestu máli, Úkraínu þar á meðal og fyrst og fremst, er að af fundinum komi mjög skýr skilaboð og skýrar skuldbindingar um langtímastuðning fyrir Úkraínu. Við erum með okkar þingsályktun sem er samþykkt, þverpólitískur stuðningur í því að styðja við Úkraínu á komandi árum, og forsætisráðherra hefur undirritað þennan samning um tvíhliða öryggistryggingar við Selenskí á milli Íslands og Úkraínu.
Auðvitað eru okkur sett takmörk í því með hvaða hætti við styðjum við Úkraínu, vegna þess að það sem að þau þurfa fyrst og fremst eru vopn til þess að verja sig. Verja sína lofthelgi og geta barist gegn innrásarher Rússlands, en það er alls kyns annar stuðningur sem er mikilvægur. Við höfum lagt áherslu á þannig, þar er okkar hlutverk, og síðan bara tala skýrt í þessa sameinuðu röddu um af hverju örlög Úkraínu skipta máli fyrir í raun öll aðildarríki Atlantshafsbandalagsins,“ segir ráðherra.
Greint hefur verið frá því að Tyrkir fundi með BRICS-ríkjum, eða Brasilíu, Rússlandi, Kína og Suður-Afríku. Spurð hvaða áhrif það hafi á stöðu Tyrkja í Atlantshafsbandalaginu og hlutverk þeirra í Evrópusamstarfi segir ráðherra mikilvægt að bandalagið sé sameinað í sínum skilaboðum til umheimsins.
„Inni í Atlantshafsbandalaginu eru auðvitað líkt þenkjandi ríki sem að hafa skuldbundið sig til þess að standa vörð um ákveðin gildi, þetta varnarsamstarf, fælingarmátt og getu til þess að verja sig og þetta einn fyrir alla, allir fyrir einn. Þau ríki sem eru aðilar að Atlantshafsbandalaginu hafa náttúrulega skuldbundið sig til þess að gera það. Það er er blæbrigðamunur á milli einstakra ríkja í orðavali og svona kannski forgangsröðun í þessa veru.
Þú nefnir Tyrkland og BRICS, og Kína, það er hægt að nefna Ungverjaland líka, sem er auðvitað til viðbótar Evrópusambandsríki sem Tyrkir eru ekki. En þess þá heldur er þessi fundur mikilvægur til þess að koma út skilaboðum frá öllum aðildarríkjum um það hversu sameinuð við erum í því að takast á við þessar meiriháttar breytingar á alþjóðakerfinu og sýna það okkar á milli líka að þar liggja hagsmunir allra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins.“
Þegar samtalið víkur að mögulegu endurkjöri Donalds Trumps, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, og áhrifum þess á Atlantshafsbandalagið, með tilliti til þess hve gagnrýninn hann hefur verið á samstarfið, segir Þórdís stöðu bandalagsins hafa gjörbreyst síðan Trump gagnrýndi framlög aðildarríkja.
„Á sínum tíma þegar að Donald Trump var að benda á varnarútgjöld aðildarríkja, hafði hann sínar ástæður fyrir því að bera það á borð. En það breytir því ekki að þá var mikill minnihluti aðildarríkja sem að stóð við þær skuldbindingar sem að Atlantshafsbandalagið hefur sameiginlega tekið ákvörðun um sem er 2% af vergri landsframleiðslu í varnarútgjöld. Sú staða hefur gjörbreyst og auðvitað fyrst og fremst vegna aðstæðna.
Það er mismunandi á milli aðildarríkja hvernig þau horfa framan í þann möguleika að áherslur Bandaríkjaforseta geti breyst en Atlantshafsbandalagið stendur styrkum fótum. Sem betur fer eru flest ríki nú komin upp að þessu marki, 2% og allnokkur komin vel yfir það, það eru auðvitað fyrst og fremst þau ríki sem eru nær vígaslóðum sem endurspeglar aftur alvarlega stöðu,“ segir Þórdís.
Hún nefnir að varnarútgjöld Íslands séu mjög lág í þessu samhengi en tveggja prósenta reglan eigi ekki við okkur vegna herleysis.
„Við eigum og við viljum og við þurfum að vera verðugur bandamaður í Atlantshafsbandalaginu. Þannig að stutta svarið er, auðvitað er þetta eitthvað sem að mjög margir velta fyrir sér en Atlantshafsbandalagið stendur mjög styrkum fótum og ég er sannfærð um að útkoman, niðurstaðan af þessum leiðtogafundi muni sýna það mjög skýrt,“ segir Þórdís.
Meira um sýn utanríkisráðherra á varnarmál og þróun alþjóðasamfélagsins í þeim efnum má sjá í Morgunblaðinu í gær.