Eigendaskipti á Melabúðinni í Vesturbæ

Frá vinstri: Snorri Guðmundsson, eigandi Melabúðarinnar, Inga Hrönn Georgsdóttir, verslunarstjóri …
Frá vinstri: Snorri Guðmundsson, eigandi Melabúðarinnar, Inga Hrönn Georgsdóttir, verslunarstjóri Melabúðarinnar, og Pétur Alan Guðmundsson, eigandi Melabúðarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Melabúðin við Hagamel í Vesturbæ Reykjavíkur hefur fengið nýja eigendur, en þessi rótgróna hverfisverslun hefur þjónustað viðskiptavini frá árinu 1956. Melabúðin hefur lengst af verið í eigu sömu fjölskyldunnar, en nú stíga bræðurnir Pétur Alan og Snorri Guðmundssynir til hliðar og afhenda keflið til eigendahóps sem hefur sett sér það markmið að viðhalda þeirri starfsemi sem Melabúðin hefur haldið uppi í mörg ár.

Vilja alls ekki breyta Melabúðinni

Nýir eigendur eru þau Anna Jónsdóttir, Bjarki Már Baxter, Pétur Árni Jónsson og Þorsteinn Rafn Johnsen, en Inga Hrönn Georgsdóttir sem hefur starfað sem verslunarstjóri Melabúðarinnar undanfarin ár mun alfarið taka við daglegri stjórn búðarinnar, segir í tilkynningu.

„Melabúðin er einstök búð með einstaka sögu og markmiðið okkar er að halda í öll sérkenni Melabúðarinnar,“ segir Bjarki Már Baxter, einn af nýju eigendum Melabúðarinnar, í samtali við mbl.is

„Hugmyndin er að halda áfram að reka hana eins og hún er,“ segir Bjarki. „Það er alls ekki verið að kaupa búðina til þess að breyta henni,“ bætir hann við. 

Ætla að njóta hinum megin við borðið

 „Við höfum byggt upp að okkar mati góða þjónustu og tryggan rekstur og við erum ánægðir með okkar áratuga framlag til viðskiptavina. En allt hefur sinn tíma. Pétur er búinn að standa í stafninum í rúmlega 30 ár og við erum ekki að yngjast. Við erum þess fullvissir að flotta starfsfólkið okkar sem við nú kveðjum og nýir eigendur, með Ingu verslunarstjórann okkar í brúnni, haldi áfram á sömu braut. Nú njótum við þess bara að vera hinum megin við borðið, enda búum við báðir á Melunum,“ er haft eftir Snorra í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert