GPS- og gervihnattagögn sýna að landrisið við Svartsengi er hraðar en áður en eldgosið hófst 29. maí.
Í tilkynningu á vef Veðurstofunnar segir að líkanreikningar byggðir á aflögunargögnum bendi til að kvikuinnstreymi sé meira nú en í maí.
Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir um eðlilega þróun að ræða þar sem nú sé ekki eldgos í gangi á sama tíma og kvika safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi. Þannig fari meiri kvika í hólfið nú en þá.
Jóhanna vekur athygli á því að áætlað kvikuinnstreymi núna sé svipað og kvikuinnstreymið á fyrsta ársfjórðungi, eins og sjá má á grafinu hér fyrir neðan.
Þá sé innstreymi kviku í dag mun minna en fyrir áramót, en í október og nóvember var það áætlað allt að 9-10 rúmmetrar á sekúndu.