Gripið til varúðarráðstafana á Litla-Hrauni

Fangaverðir beita varnarskjöldum.
Fangaverðir beita varnarskjöldum. mbl.is/Sigurður Bogi

Gripið hefur verið til varúðarráðstafana á Litla-Hrauni vegna fanga sem bíður dómsuppkvaðningar.

Nútíminn greinir frá því að viðbúnaðurinn sem nú sé á Litla Hrauni vegna Sýrlendingsins Mohamads Kourani eigi sér enga hliðstæðu.

Aðalmeðferð í máli Kourani fór fram í Héraðsdómi Reykja­ness í síðustu viku en hann er meðal annars ákærður fyr­ir að hafa framið stunguárás í OK Mar­ket í Valshverfinu í mars.

Eft­ir árás Kourani í OK mar­ket upp­lýsti Helgi Magnús Gunn­ars­son vara­rík­is­sak­sókn­ari að Kourani hafi einnig staðið í hót­un­um við sig árum sam­an og hlotið dóm fyr­ir. Í heild voru sak­ar­efn­in þá lík­ams­árás, hús­brot, brot gegn nálg­un­ar­banni, eigna­spjöll, brot gegn sótt­varna­lög­um, brot gegn vald­stjórn­inni, fyr­ir að gabba lög­reglu, brot gegn vopna­lög­um, skjalafals og um­ferðarlaga­brot.

Vistaður í öryggisklefa

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu félags fanga, segir Kourani nú vistaðan í öryggisklefa. Síðar verði hann færður á öryggisgang.

„Við erum að tala um að þarna er, að okkar mati, mjög veikur einstaklingur. Hann er vistaður í öryggisklefa og verður síðan síðar vistaður á öryggisgangi, um leið og það telst óhætt,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is. 

Að sögn Guðmundar nota fangaverðir meðal annars varnarskildi í samskiptum sínum við Kourani. Hann segir viðbúnaðinn að mestu leyti Kourani til öryggis.

Spurður hvort aðrir fangar á Litla-Hrauni upplifi hræðslu vegna veru Kourani í fangelsinu segist Guðmundur ekki hafa heyrt af því.

Guðmundur Ingi Þóroddsson er formaður Afstöðu, félags Fanga.
Guðmundur Ingi Þóroddsson er formaður Afstöðu, félags Fanga. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þurfi að bæta úrræði fyrir andlega veika

Guðmundur telur að það hafi átt að vista Kourani í úrræði fyrir þá sem glíma við andleg veikindi. Hann segir vanbúið um slík úrræði hér á landi.

„Við teljum að það þurfi að finna viðeigandi úrræði fyrir svona veika einstaklinga því að þeir verða bara enn veikari á svona stað,“ segir Guðmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka