Gripið hefur verið til varúðarráðstafana á Litla-Hrauni vegna fanga sem bíður dómsuppkvaðningar.
Nútíminn greinir frá því að viðbúnaðurinn sem nú sé á Litla Hrauni vegna Sýrlendingsins Mohamads Kourani eigi sér enga hliðstæðu.
Aðalmeðferð í máli Kourani fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í síðustu viku en hann er meðal annars ákærður fyrir að hafa framið stunguárás í OK Market í Valshverfinu í mars.
Eftir árás Kourani í OK market upplýsti Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari að Kourani hafi einnig staðið í hótunum við sig árum saman og hlotið dóm fyrir. Í heild voru sakarefnin þá líkamsárás, húsbrot, brot gegn nálgunarbanni, eignaspjöll, brot gegn sóttvarnalögum, brot gegn valdstjórninni, fyrir að gabba lögreglu, brot gegn vopnalögum, skjalafals og umferðarlagabrot.
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu félags fanga, segir Kourani nú vistaðan í öryggisklefa. Síðar verði hann færður á öryggisgang.
„Við erum að tala um að þarna er, að okkar mati, mjög veikur einstaklingur. Hann er vistaður í öryggisklefa og verður síðan síðar vistaður á öryggisgangi, um leið og það telst óhætt,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.
Að sögn Guðmundar nota fangaverðir meðal annars varnarskildi í samskiptum sínum við Kourani. Hann segir viðbúnaðinn að mestu leyti Kourani til öryggis.
Spurður hvort aðrir fangar á Litla-Hrauni upplifi hræðslu vegna veru Kourani í fangelsinu segist Guðmundur ekki hafa heyrt af því.
Guðmundur telur að það hafi átt að vista Kourani í úrræði fyrir þá sem glíma við andleg veikindi. Hann segir vanbúið um slík úrræði hér á landi.
„Við teljum að það þurfi að finna viðeigandi úrræði fyrir svona veika einstaklinga því að þeir verða bara enn veikari á svona stað,“ segir Guðmundur.