Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir ljóst að íslenski grunnskólinn virki ekki og að nauðsyn sé á uppstokkun. Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag gagnrýnir hann hvernig komið hafi verið í veg fyrir að kennarar, foreldrar og nemendur fái samanburð á gæðum skólastarfs.
Tilefni skrifa Óla Björns er viðtal við Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóra Réttarholtsskóla í Dagmálum í síðustu viku þar sem Jón Pétur bendir m.a. á niðurstöður úr PISA, þar sem fram kemur að hlutfall nemenda í tíunda bekk sem búa ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi hafi tvöfaldast frá 2012 til 2022.
Óli Björn fagnar fordæmi Ásdísar Kristjánsdóttur bæjarstjóra Kópavogsbæjar sem, eins og kom fram í blaðinu í gær, ætlar að bregðast við vandanum og axla ábyrgð.
„Annað sveitarstjórnarfólk hlýtur að fylgja frumkvæði Ásdísar. Undan því verður ekki vikist. Menntakerfið er beittasta og skilvirkasta verkfærið sem hvert samfélag hefur til að tryggja jöfn tækifæri óháð efnahag, uppruna, búsetu eða fjölskylduhögum. Bregðist grunnskólinn verður verkfærið bitlítið. Kerfið er að svipta börn tækifærum til að rækta hæfileika sína og njóta þeirra,“ segir Óli Björn.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.