Gul viðvörun tekur gildi í kvöld

Gul viðvörun tekur gildi í kvöld.
Gul viðvörun tekur gildi í kvöld. Kort/Veðurstofa Íslands

Gul viðvörun tekur gildi á Breiðafirði klukkan 21 í kvöld og verður hún í gildi þangað til í fyrramálið.

Það gengur í suðvestan 13 til 20 metra á sekúndu, einkum á norðanverðu Snæfellsnesi. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 30 metrum á sekúndu, sem geta verið varhugaverðar fyrir vegfarendur með aftanívagna eða á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind. Fólk er hvatt til að sýna aðgát, ganga frá lausum munum og fylgjast með veðurspám.

Í athugasemd veðurfræðings á Veðurstofu Íslands kemur fram að allhvöss suðvestanátt verður á Ströndum fram eftir morgni og aftur í kvöld og nótt. Staðbundið verður hvassara í vindstrengjum við fjöll. Aðstæðurnar eru varasamar fyrir ferðamenn og útivistarfólk. Sunnan hvassviðri verður á norðanverðu Snæfellsnesi í kvöld.

Rigning með köflum vestan til

Veðurspáin á landinu í dag er þannig að það verður suðlæg átt, 3 til 8 metrar á sekúndu, en 5-13 m/s norðvestan til. Staðbundið verður hvassara á Ströndum fram eftir morgni. Rigning verður með köflum vestan til upp úr hádegi, en bjart fyrir austan þegar kemur fram á daginn. Hiti verður á bilinu 8 til 20 stig, hlýjast Austanlands.

Bætir í vind í kvöld og nótt og verða suðvestan 8-15 m/s á morgun, hvassast fyrir norðan. Súld verður eða rigning Vestanlands og hiti 8 til 15 stig, annars víða léttskýjað og hiti 15 til 22 stig.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert