Ísland dregið fyrir dómstól EFTA

Höfuðstöðvar EFTA í Brussel.
Höfuðstöðvar EFTA í Brussel. Ljósmynd/Boubloub

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur í dag ákveðið að vísa tveimur málum gegn Íslandi til EFTA-dómstólsins vegna meintra óréttmætra takmarkana á frjálsri för launafólks og þjónustufrelsi.

Annað málið varðar synjun á flutningi starfstengdra lífeyrisréttinda sem áunnin eru á Íslandi til lífeyrissjóðs stofnana Evrópusambandsins (PSEUI).

Hitt málið varðar skerðingu á atvinnuleysisbótum vegna tímabundinnar dvalar bótaþega í öðru EES-ríki.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá ESA.

Fékk ekki flytja lífeyri til ESB-stofnana

ESA hóf rannsókn í fyrra málinu árið 2019 en það varðar synjum á fluttningi lífeyrisréttinda.

Árið 2019 barst ESA kvörtun frá íslenskum ríkisborgara sem starfaði hjá Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA) og hafði verið synjað um flutn­ing á starfstengd­um líf­eyri sem áunn­in var á Íslandi til stofn­ana ESB.

mbl.is hefur fjallað um málið.

Bygging ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, í Brussel.
Bygging ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, í Brussel.

EES-samningurinn gerir íbúum EES EFTA-ríkjanna kleift að starfa hjá stofnuninni og kveðið er á um að starfsmannareglur Evrópusambandsins skuli gilda um starfsfólk stofnunarinnar. Þær reglur gera ráð fyrir möguleika á flutningi áunninna réttinda og því setur synjun á flutningi lífeyris hlutaðeigandi einstaklinga í verri stöðu en samstarfsfélaga þeirra frá öðrum EES-ríkjum.

Slík synjun getur þannig haft áhrif á vilja launþega til að nýta rétt sinn til frjálsrar farar, sem EES-samningurinn tryggir.

Ákvörðun ESA að vísa málinu til EFTA-dómstólsins fylgir í kjölfar formlegs áminningarbréfs sem sent var til Íslands í febrúar 2021 og rökstudds álits sem sent var í mars 2023.

Skerða atvinnuleysisbætur ef maður fer til tannlæknis erlendis

Sem fyrr segir varðar seinna málið skerðingu á atvinnuleysisbótum vegna tímabundinnar dvalar bótaþega í öðru EES-ríki.

Í desember 2020 barst ESA kvörtun sem sneri að því að ein­stak­ling­ur á at­vinnu­leys­is­bót­um ætlaði sér að sækja tann­heil­brigðisþón­ustu í öðru EES-landi. En honum var þá tjáð af Vinnumála­stofn­un að hann myndi hljóta skert­ar at­vinnu­leys­is­bæt­ur sem miðuðust út frá lengd á dvöl hans í EES-rík­inu sem hann hygðist heim­sækja.

mbl.is fjallaði einnig um málið á sínum tíma.

ESA tekur vissulega fram að Íslensk löggjöf kveði á um að atvinnulaus einstaklingur skuli vera búsettur og staddur á landinu til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Eina undantekningin frá þeirri reglu er ef atvinnulaus einstaklingur er í atvinnuleit í öðru EES-ríki.

„EES-samningurinn gerir einstaklingum hins vegar einnig kleift að sækja heilbrigðisþjónustu í öðrum EES-ríkjum, en engin undanþága er veitt frá viðveruskyldu á Íslandi fyrir atvinnulausa einstaklinga,“ segir í yfirlýsingunni.

Atvinnuleysisbætur séu því ekki greiddar þá daga sem viðkomandi er erlendis að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Til samanburðar eigi atvinnulaus einstaklingur fimm daga veikindarétt og geti sótt sér heilbrigðisþjónustu á Íslandi án þess að bætur séu skertar.

EFTA-dómstóllinn mun nú dæma 

ESA telur að með því að skerða atvinnuleysisbætur í slíkum aðstæðum hafi Ísland ekki gætt að skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum að því er varðar réttinn til að sækja heilbrigðisþjónustu í öðrum EES-ríkjum.

ESA hafði áður sent íslenskum stjórnvöldum formlegt áminningarbréf í október 2022 og rökstutt álit í maí 2023.

Vísun mála til EFTA-dómstólsins er lokaskrefið í formlegu samningsbrotamáli ESA gegn Íslandi. EFTA-dómstóllinn mun nú dæma í málunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert