Orðrómurinn farinn að fæla fólk frá landinu

Í tæplega helmingi tilfella voru gerðar athugasemdir vegna gruns.
Í tæplega helmingi tilfella voru gerðar athugasemdir vegna gruns. mbl.is/​Hari

Orðróm­ur um að leigu­bíl­stjór­ar hér á landi of­rukki er­lenda ferðamenn er tek­inn að ber­ast út fyr­ir land­stein­ana og inn á út­lend­ar ferðasíður. Ferðamenn hafa sum­ir í kjöl­farið veigrað sér við að heim­sækja landið.

Þetta seg­ir Daní­el Orri Ein­ars­son, formaður bif­reiðastjóra­fé­lags­ins Frama, í sam­tali við Morg­un­blaðið.

Að sögn Daní­els er auðveld­ara að svindla á er­lend­um ferðamönn­um en Íslend­ing­um þar sem Íslend­ing­ar þekki bet­ur hvað það kosti að ferðast á milli staða með leigu­bíl­um hér­lend­is. Nú megi finna viðvar­an­ir á net­inu um svindl leigu­bíl­stjóra hér í garð ferðamanna.

„Við erum bún­ir að sjá það á Trip Advisor og öðrum heimasíðum al­veg til Ástr­al­íu. Við höf­um orðið var­ir við þetta og erum bún­ir að sjá þetta á net­inu – það er verið að vara ferðamenn við því að koma til Íslands út af því að þeir verði rænd­ir hér,“ seg­ir Daní­el.

Nefn­ir hann að í kjöl­far nýrra laga um leigu­bif­reiðaakst­ur, sem samþykkt voru í des­em­ber 2022 og tek­in upp í apríl 2023, hafi leiðinda­ástand ríkt á markaðinum og fé­lagið fengið marg­ar til­kynn­ing­ar þar sem kvartað er und­an leigu­bíl­stjór­um. Það sé hins veg­ar lítið sem fé­lagið geti gert.

Með nýju lög­un­um var fjölda­tak­mörk­un af­num­in og hafa veitt leyfi til leigu­bif­reiðaakst­urs farið úr 480 og upp í 900 að sögn Daní­els.

Helsta vanda­málið sé þá að bíl­arn­ir eru marg­ir hverj­ir órekj­an­leg­ir.

Greint var frá því í júní að lög­regla fram­kvæmdi eft­ir­lit á 105 leigu­bíl­um í miðborg­inni þar sem at­huguð voru leyfi leigu­bíl­stjór­anna og öku­tækja þeirra. Í tæp­lega helm­ingi til­fella voru gerðar at­huga­semd­ir vegna grun­semda um brot og eiga 48 leigu­bíla­stjór­ar yfir höfði sér kæru vegna þessa.

Seg­ir Daní­el að lög­regla sé þó ein­ung­is að skoða bíla sem hafa taxa­merki en marg­ir séu merkjalaus­ir og bæta þurfi eft­ir­lit með leigu­bíl­um hér á landi eft­ir að nýju lög­in voru samþykkt.

Seg­ist hann vita til þess að marg­ir aðilar keyri um á leigu­bíl­um án leyf­is og séu nær órekj­an­leg­ir. Vill hann fá litaðar núm­era­plöt­ur á leigu­bíla eins og finna má víðs veg­ar í öðrum lönd­um.

Lesa má meira um málið í Morg­un­blaðinu í dag. 

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert