Sakborningarnir allir íslenskir

Málið varðar stórfelld fíknefnalagabrot, skipulagða brotastarfsemi, peningaþvætti og vopnalagabrot.
Málið varðar stórfelld fíknefnalagabrot, skipulagða brotastarfsemi, peningaþvætti og vopnalagabrot. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þau átján sem voru í ákærð í máli er varðar innflutning, vörslu, sölu og dreifingu fíkniefna eru öll með íslenskan ríkisborgararétt. Þetta staðfestir Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá héraðssaksóknara, í samtali við mbl.is.

Talið er að þau hafi komið að skipulagðri brotastarfsemi glæpahóps en ákæra var gefin út á föstudaginn. Meðal hinna ákærðu er meintur höfuðpaur hópsins.

Geymsla, innflutningur og „allt þar á milli“

„Þetta er í raun og veru öll flóran,“ segir Karl spurður um brot sakborninganna.

Telur hann upp geymslu fíkniefna, innflutning á efnum og „allt þar á milli“. Nefnir hann þá dreifingu og sölu fíkniefna til útskýringar og bætir við að málið varði líka peningaþvætti og vopnalagabrot.

Flest­ir sak­born­ing­arnir voru hand­tekn­ir vegna innflutnings fíkni­efna til lands­ins með skemmti­ferðaskipi. Spurður hvaðan efnin voru flutt kveðst Karl ekki ætla að tjá sig um það að svo stöddu.

Þá segist hann ekki heldur ætla að upplýsa um hvort umfangsmikil rannsókn lögreglu á málinu hafi leitt af sér aðrar sambærilegar rannsóknir sem varða stórfelld fíkniefnalagabrot.

Útilokar ekki réttarhöld eins og í Gullhömrum

Fjöldi ákærðra í málinu er nokkuð einstakur en sjaldan eru svo margir ákærðir í einu lagi.

Sakborningar í hinu svokallaða Bankastræti Club máli voru 25 talsins en réttarhöld í því máli þurfti þess vegna að færa í veislusalinn Gullhamra í Grafarholti.

Spurður hvort hann eigi von á svipuðu umfangi á réttarhöldum svarar Karl: „Það fer bara eftir því hvernig eða hvaða afstöðu sakborningarnir hafa til sakarefnisins.“

Upplýsir hann ekki um afstöðu sakborninganna en segir: „Það er nú þannig, svona heilt yfir, að þá neita menn sök eða kjósa að tjá sig ekki um sakarefnið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert