Snjóþyngsli koma í veg fyrir minningargöngu

Askja.
Askja. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir

„Þetta er sem sagt fræðsluganga sem að snýst um Inu von Grumbkow sem kom til Íslands ári eftir að maðurinn hennar og vinur hans týndust í Öskjuvatni,“ segir Elías Arnar, landvörður hjá Öskju, um hina árlegu Knebelsgöngu.

Gangan verður með breyttu sniði í ár en sökum mikils og blauts snjós á gönguleiðinni verður áhugasömum í staðinn boðið upp á kaffi og sögustund í landvarðahúsinu í Dreka sem stendur við Drekagil.

„Í staðinn fyrir að vera með þessa hefðbundnu göngu þar sem við löbbum inn þessa tvo kílómetra og fjöllum um þessa atburði þá ætlum við bara að vera með kaffi í Dreka – skálanum okkar. Fá alla túristana á svæðinu og hella upp á og spjalla aðeins um það sem gerðist,“ segir Elías.

Fundust aldrei 

Spurður nánar um forsöguna segir Elías að árið 1907 hafi hingað til lands komið vísindamaður að nafni Walter von Knebel ásamt vini sínum Max Rudloff. Með þeim í för var jarðfræðinemi Knebels, Hans Spethman.

Voru þeir að rannsaka Öskju í kjölfar stórgossins árið 1875.

„Það gerðist sem sagt 10. júlí að hann trítlaði upp á fjall hann Spethman og er að sinna hliðarverkefni. Knebel og Rudloff fara í bát út á vatn. Svo kemur Spethman til baka og finnur þá hvergi og leitar þeirra alveg heillengi,“ segir Elías og nefnir að eftir fimm daga hafi menn frá Mývatni loks komið og alvöruleit hafist en aldrei fundust Knebel og Rudloff.

Askja konungleg gröf

Unnusta Knebels, Ina von Grumbkow, kom svo hingað til lands ári síðar til að leita mannanna.

„Hún fer alveg út um allt. Alveg yfir hálendið og alla þessa þekktustu staði og kemur svo inn í Öskju og augljóslega finnur þá ekki,“ segir Elías og bætir við.

„Þetta endar rosa fallega. Hún nær smá sáttum við sjálfa sig. Hún talar um að hún gæti ekki hugsað sér konunglegri gröf fyrir manninn sinn heldur en Öskju og lætur svo reisa svona vörðu sem er þarna inn í Öskju og heitir Knebelsvarða. Það er svona minnisvarði þarna inni um þessa menn.

Segir Elías að í hinni árlegu göngu sé farið yfir söguna ásamt því að rætt er almennt um Öskju og stórgosið mikla.

Nánar um söguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert