Það eru blikur á lofti í ferðaþjónustunni en eftirspurn eftir ferðum til landsins hefur minnkað samanborið við síðasta ár.
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, boðaði átak í neytendamarkaðssetningu fyrir ferðamenn í viðtali við mbl.is í síðasta mánuði og í gær sagði hún brýnt að farið verði út í markaðssetningu á heilsárs grundvelli.
„Það sem skiptir mestu máli er að það verði hætt átaksverkefnum eins og hefur verið lenskan hingað til og að það verði sett upp um það bil fimm ára plan fram í tímann hvert fjármagnið er þannig að það verði hægt að gera áætlanir fram í tímann, fara í útboð um efnisgerð og að þau hjá Íslandsstofu viti hvaða fjármagn þau hafa til birtingar,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, við mbl.is.
Jóhannes segir að með þessu þá nýtist markaðsféð og hið opinbera fé miklu betur. Hann segir að SAF sé búið að segja þetta árum saman en því miður hafi ekki gengið sérstaklega vel að koma þessu í gegnum stjórnkerfið.
„En það er jákvæðara hljóð fyrir þessu núna og ég vonast til þess eins og Lilja talar um að það gerist,“ segir Jóhannes.
Hann segir að flestar tölulegar breytur séu að færast í öfuga átt við það sem Samtök ferðaþjónustunnar vilji sjá sem og allt samfélagið.
„Þó svo að það stefni ekki í neitt hrun á þessu ári þá erum við að horfa á þessar breytur og ef þær halda áfram færast í vitlausa átt þá erum við að fara í öfuga átt við þá stefnumótun sem var verið að samþykkja á þinginu í vor.“
Jóhannes segir að við þessu þurfi að bregðast og það sé betra að gera það fyrr heldur en seinna.
Í tölum sem Ferðamálastofa gaf út í dag má sjá að ferðamönnum fækkaði um 9 prósent í júní en brottfarir erlendra ferðamanna voru 21 þúsund færri en mældust í júní í fyrra.
Farþegafjöldinn hjá Icelandair í júní var svipaður og í fyrra en Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í tilkynningu frá Icelandair á dögunum að eftirspurn eftir ferðum til landsins hafi minnkað samanborið við síðasta ár.
Icelandair flutti 514 þúsund farþega í júní, 1% færri en í júní í fyrra. Þar af voru 31% á leið til Íslands, 15% frá Íslandi og 49% voru tengifarþegar. Fækkaði erlendum ferðamönnum sem voru á leið til Íslands um tæplega 30 þúsund milli ára, eða úr 189 þúsund í 159 þúsund. Tengifarþegum fjölgaði hins vegar um 34 þúsund milli ára.
Flugfélagið Play flutti 173.109 farþega í júní sem er 7,5% meira en í júní í fyrra. Af þeim farþegum sem flugu með Play í júní voru 31,9% á leið frá Íslandi, 24,3% voru á leið til Íslands og 43,8% voru tengifarþegar.
„Við erum ánægð að sjá vöxt í farþegatölunum, en hefðum viljað sjá hærri sætanýtingu. Þessa niðurstöðu má rekja til aukinnar samkeppni í flug yfir Atlantshafið og til fækkunar farþega til Íslands sem er afleiðing af öflugu markaðsstarfi sem nágrannaríki okkar hafa ráðist í,“ segir Einar Ólafsson, forstjóri Play, á vef Play.
Jóhannes Þór segir að forstjórar Icelandair og Play segi það sama og hann tekur undir orð þeirra.
„Þetta er ákveðið áhyggjuefni. Við erum að horfa á gríðarlegan ferðavilja í heiminum og þá hljótum við að velta því fyrir okkur hvers vegna það að leit að Íslandi sem áfangastað hafi minnkað, dvalartími á Íslandi hafi lækkað og að verðmæti hvers ferðamanns sé á leiðinni niður á meðan aðrir áfangastaðir horfa á að hlutirnir séu að þróast í hina áttina,“ segir hann.
Hver er helsta ástæða þessa samdráttar?
„Hátt verðlag á Íslandi spilar að sjálfsögðu þar inní og það er hluti af ástæðunni. Við erum að tapa samkeppnishæfni gagnvart öðrum áfangastöðum sem við erum í samkeppni við eins og til dæmis frá Noregi en norska krónan er veikari en oft áður.“
Jóhannes bendir einnig á hátt vaxtastig, sem geri fjárfestingar dýrari, og þráláta verðbólgu hér á landi. Þá nefnir hann meiri launakostnað hlutfallslega í fyrirtækjarekstri heldur en í mörgum af samkeppnislöndum Íslands. Hann segir líka að eftirspurnin hafi verið gríðarlega mikil í fyrra sem hafi leidd til hækkunar á verðum og þá sé einnig ótti við eldgos sem hafi verið undirliggjandi á mörkuðunum.
„Ég get alveg lofað ráðherra ferðamála og öðrum í stjórnkerfinu að tölurnar í júní og júlí verða ekkert öðruvísi heldur en í maí. Við erum með 18 prósent samdrátt í gistinóttum útlendinga og til samanburðar þá eru Svíþjóð, Danmörk og Noregur að auka við gistinætur núna miðað við árið 2019 en við erum undir miðað við 2019.“
Jóhannes segir að það þýði ekki að horfa til þess að þeir íþróttaviðburðir sem eru í sumar, EM og ólympíuleikar, séu að valda minni ferðamennsku í heiminum. Hann segir að það sé ekki þannig.