Inga Þóra Pálsdóttir
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, segir nauðsynlegt að nýjum búvörulögum verði breytt. Hann óttast að verð á kjötvöru muni hækka.
Ný búvörulög voru samþykkt í mars. Þau fela meðal annars í sér undanþágu afurðastöðva í kjötiðnaði frá samkeppnislögum sem gerir þeim auðveldara fyrir að sameinast.
Nú um helgina var greint frá því að hluthafar í Kjarnafæði Norðlenska hf. höfðu samþykkt tilboð Kaupfélags Skagfirðinga um kaup á allt að 100% hlutafjár í Kjarnafæði Norðlenska hf. Kaupin eru mögulega vegna hinna nýju laga.
Lögin hafa verið gagnrýnd af ýmsum, meðal annars Samkeppniseftirlitinu.
Guðmundi Inga líst illa á kaup Kaupfélags Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska hf. Hann vonast til að verð á kjötvöru hækki ekki, en honum þykir það þó líklegt.
„Mér líst illa á þetta. Við í Flokki fólksins vorum á móti þessu. Þarna var verið að fara á snið við samkeppnislög og okkur hugnar það ekki vegna þess að á endanum bitnar það alltaf á neytendum,“ segir Guðmundur Ingi í samtali við mbl.is.
„Ég held að þeir sem munu kannski mest tapa á þessu eru bæði bændur og neytendur, svo munu milliliðirnir græða,“ segir Guðmundur Ingi enn fremur.
Þá segir Guðmundur Ingi ljóst að þessar breytingar á búvörulögum hafi verið gerðar til að komast hjá Samkeppniseftirlitinu. Hann segir að Flokkur fólksins muni beita sér í þessu máli er þing kemur aftur saman í ágúst.
„Við verðum að stöðva svona rugl. Þetta gengur ekki upp,“ segir Guðmundur Ingi.