Einn er alvarlega slasaður eftir tveggja bíla árekstur á Holtavörðuheiði í gær og sex aðrir eru með minni áverka. Fjögur börn voru í bílunum tveimur.
Þetta segir Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, í samtali við mbl.is.
Tveir bílar skullu saman í gær og voru alls sjö manns í bílunum. Fimm manna fjölskylda var í öðrum bílnum og þar af voru þrjú börn. Í hinum voru tveir, þar af eitt barn.
Hinn alvarlega slasaði var ökumaður í annarri bifreiðinni.
Slysið varð upp úr klukkan 16 í gær. Báðir bílar höfnuðu utan vegar og annar þeirra skemmdist talsvert. Sex voru fluttir með þyrlum Landhelgisgæslunnar en sjöundi farþeginn var fluttur af vettvangi með öðrum leiðum.
Aðspurður segir hann að verið sé að rannsaka tildrög slyssins.