„Erum vonbetri í dag en í gær“

Blikur eru á lofti í atvinnulífinu á Akranesi eftir að …
Blikur eru á lofti í atvinnulífinu á Akranesi eftir að Skaginn 3X varð gjaldþrota. mbl.is/Sigurður Bogi

Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri Akraness, kveðst bjartsýnn á að vænta megi farsællar lausnar um framtíð Skagans 3X.

„Við áttum fund með stjórnendum Íslandsbanka í morgun þar sem við lögðum áherslu á að bankinn freistaðist til að endurreisa félagið í heilu lagi. Síðan í kjölfarið höfum við fengið upplýsingar um að það sé að fæðast einhver nýr hópur í dag sem hefur haft samband við skiptastjóra,“ segir Haraldur í samtali við mbl.is en hann kveðst ekki geta veitt upplýsingar um téðan hóp.

„Við erum vonbetri í dag en í gær.“

Haraldur Benediktsson.
Haraldur Benediktsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikilvægt að varðveita fyrirtækið

Að hans sögn hefur höfuðáhersla bæjarstjórnar ætíð verið að varðveita fyrirtækið í heilu lagi og að það sé stakkbúið til að halda áfram starfsemi á Akranesi.

„Við erum að vonast til þess að það sé að fæðast einhver hópur sem vill reyna taka fyrirtækið í heilu lagi og endurreisa það og við höfum verið að laða fram slíkar hreyfingar. Það hefur verið að takast og vonum að það komi aðilar sem vilja láta reyna á það.“

Samstaða milli bæjarstjórnar og stjórnvalda

Hann segir það myndu verða mikið högg fyrir Akranes ef ekki næðist að endurreisa félagið sem og fyrir íslenskt samfélag.

„Við höfum flaggað áhyggjum okkar um rekstur sjávarútvegs heilt yfir í samskiptum við þingmenn og ráðherra. Samband okkar við fjármálaráðherra hefur verið gott og hann dokar þessu eins og hægt er. Það er vilji hjá öllum að þetta takist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert