Ísland fær harða útreið hjá ESA

Þrjú mál munu fara fyrir dómstól EFTA.
Þrjú mál munu fara fyrir dómstól EFTA. mbl.is/Eggert/Hari

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur nú sent frá sér þrjár yfirlýsingar um að Ísland verði dregið fyrir dómstóla EFTA og eitt formlegt áminningarbréf. Stjórnvöld hafa tvo mánuði til að svara bréfinu áður en ESA ákveður að fara með málið lengra.

Í einu málanna hefur ESA ákveðið að vísa máli gegn Íslandi til EFTA-dómstólsins þar sem Ísland hefur ekki komið á fyrir fram ákveðnu fyrirkomulagi sem tryggir gott samstarf milli opinberra aðila við rannsókn flugslysa.

Hóf ESA samningsbrotamál gegn Íslandi árið 2021 fyrir að uppfylla ekki skyldur sínar samkvæmt Evrópureglugerð um rannsóknir slysa og annarra flugatvika.

Höfðu fengið áminningarbréf og álit

„Í fyrsta lagi hafði Ísland ekki sýnt fram á að fyrir fram ákveðið fyrirkomulag væri til staðar milli rannsóknaryfirvalda og annarra yfirvalda sem koma að aðgerðum í tengslum við öryggisrannsóknir, svo sem lögreglu og ákæruvalds, flugmálayfirvalda og viðbúnaðaraðila. Samstarfið milli þessara aðila verður að vera fyrir fram ákveðið til að tryggja að hlutverk og verkferlar séu skýr. Í öðru lagi hafði Ísland ekki tryggt fullnægjandi viðurlög við brotum á ákvæðum Evrópureglugerðarinnar. Íslensk stjórnvöld hafa síðan þá gert ráðstafanir til að bæta úr þessu broti,“ segir í þeirri tilkynningu ESA.

Kemur þá fram að ákvörðun ESA að vísa málinu til EFTA-dómstólsins komi í kjölfar formlegs áminningarbréfs sem sent var íslenskum stjórnvöldum í maí 2022 og einnig rökstuddu áliti sem sent var í maí 2023.

„Þrátt fyrir viðræður milli íslenskra stjórnvalda og ESA hefur Ísland ekki komið á fyrir fram ákveðnu fyrirkomulagi milli opinberra aðila sem koma að aðgerðum í tengslum við rannsókn flugslysa,“ segir í tilkynningunni og er tekið fram að vísun mála til EFTA-dómstólsins sé lokaskref í formlegu samningsbrotamáli ESA gegn EES EFTA-ríki og nú muni EFTA-dómstóllinn dæma í málinu.

Ísland verður svo dregið fyrir EFTA-dómstólin í máli er varðar synj­un á flutn­ingi starfstengdra líf­eyr­is­rétt­inda sem áunn­in eru á Íslandi til líf­eyr­is­sjóðs stofn­ana Evr­ópu­sam­bands­ins (PSEUI). Einnig verður landið dregið fyrir EFTA-dómstólin í máli er varðar skerðingu á at­vinnu­leys­is­bót­um vegna tíma­bund­inn­ar dval­ar bótaþega í öðru EES-ríki.

Ísland ekki staðið við skuldbindingar sínar

ESA sendi einnig frá sér formlegt áminningarbréf í gær þar sem farið er fram á að opinbert eftirlit á sviðum matvæla, fóðurs og dýraheilbrigðis fari fram á skilvirkan hátt og í samræmi við EES-reglur.

Samkvæmt EES-samningnum ber EES EFTA-ríkjum að innleiða opinbert eftirlitskerfi fyrir matvæli, fóður og dýraheilbrigði í samræmi við viðmið sem sett eru fram í reglugerð um opinbert eftirlit.

„ESA telur að Ísland hafi ekki staðið við þessar skuldbindingar sínar þar sem ekki er búið að koma á skilvirku og viðeigandi kerfi opinbers eftirlits með matvælum, fóðri og dýrum. Þetta mat byggir á ítrekuðum niðurstöðum úttekta ESA á Íslandi sem gerðar hafa verið frá árinu 2010 og skoða skyldur hinna ýmsu aðila sem koma að opinberu eftirliti á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.

Segir í tilkynningunni að þeir aðilar sem koma að opinberu eftirliti séu meðal annars Matvælaráðuneytið, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga.

Hafa tvo mánuði til að svara

„Úttektirnar hafa leitt í ljós að annmarkar eru á samræmingu verkefna þegar fleiri aðilar komu að eftirlitinu. Þetta hefur leitt til ýmist ófullnægjandi eftirlits eða tvöfalds eftirlits, sem skapar hættu fyrir heilbrigði manna og dýra,“ kemur fram í tilkynningu ESA.

Segir þá að að eftir umfangsmiklar viðræður sem byggðu á niðurstöðum úttekta ESA frá árinu 2010, hafi íslensk stjórnvöld kynnt ESA áform sín um úrbætur og feli þau í sér töluverða endurskipulagningu á kerfi opinbers eftirlits. Þó á eftir að skýra hvernig kerfinu verði stillt upp og hvenær breytingarnar verða að fullu innleiddar.

Er það því niðurstaða ESA að Ísland hafi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt EES-reglum um opinbert eftirlit.

Kemur fram að formlegt áminningarbréf sé fyrsta skrefið í samningsbrotamáli gegn EES EFTA-ríki og að Ísland hafi nú tvo mánuði til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ESA ákveður hvort fara skuli með málið lengra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert