Íslendingur leikur með NATO-sinfóníunni

Frá útskriftartónleikum Söru Mjallar við William Paterson-háskólann.
Frá útskriftartónleikum Söru Mjallar við William Paterson-háskólann. Ljósmynd/Aðsend

NATO-sinfóníunni var komið á fót á dögunum í tilefni af 75 ára afmæli Atlantshafsbandalagsins. Sara Mjöll Magnúsdóttir, fulltrúi Íslands í sinfóníunni, leikur á píanó í kvöld fyrir leiðtogafundinn í Washington.

„Ég er mjög spennt að fá þetta tækifæri og fá að spila í sinfóníuhljómsveit, sem ég hef ekki gert áður,“ segir Sara Mjöll í samtali við mbl.is.

Sinfónían spilar á bókasafni Bandaríkjaþings kl. 19 að staðartíma í Washington D.C., eða kl. 23 að íslenskum tíma.

Hljómsveitin skipuð tónlistarnemum 

Sara leikur bæði á píanó og Hammond orgel. Á væntanlegri …
Sara leikur bæði á píanó og Hammond orgel. Á væntanlegri plötu mun hún spila með kvintett og telur hún líklegt að hún syngi einnig inn á nokkur lög. Ljósmynd/Aðsend

En hvernig rataði íslenskur djasspíanisti í NATO-sinfóníuna? Sinfónían er nefnilega saman sett af tónlistarnemum, hvort sem þeir eru í námi eða nýútskrifaðir eins og Sara.

„Ég lærði af þessu í gegn um íslenska sendiráðið, þar sem ég var að spila í Washington D.C. fyrr í júní með djasstríóinu mínu [The Blues Alley],“ útskýrir Sara Mjöll.

Sara, sem verður þrítug í ár, hefur lagt stund á tónlistarnám frá tíu ára aldri. Byrjaði að spila á píanó, að mestu klassíska tónlist fyrst, en hefur síðan leikið djass frá því hún var í menntaskóla. Einnig spilar Sara á Hammond-orgel.

Þegar hún var 25 ára hóf hún bakkalárnám í djasspíanóleik í Bandaríkjunum og í vor lauk hún meistaranámi í tónsmíðum og útflutningum við William Paterson-háskólann í New Jersey.

Liðsmenn American Pops Orchestra leika einnig með sveitinni í kvöld.

Skrifað fyrir Stórsveit Reykjavíkur

Sara kveðst yfirleitt hafa setið hinum megin við borðið þegar hún vinnur með stórum hljómsveitum.

„Ég hef sem tónskáld samið og útsett mikið af tónlist fyrir stórsveitir, hef til dæmis tvisvar skrifað fyrir Stórsveit Reykjavíkur,“ segir píanistinn.

Það sé því skemmtilegt að prófa eitthvað nýtt eins og að spila með sinfóníuhljómsveit og kveðst hún einnig vera afar spennt að fá að kynnast samleikurum sínum frá hinum NATO-löndunum.

Fyrsta platan væntanleg

Sara segir að sín fyrsta djassplata sé væntanleg á næsta ári, ef ekki í ár. Plötuna gefur hún út með nýlega stofnuðum kvintettnum sínum.

„Ég hef ekki gefið neitt út enn þá, en ég er að vinna að því að gefa út tónlist fljótlega,“ segir Sara.

„Ég er að vinna í minni fyrstu plötu,“ bætir hún við og tekur fram að það gangi mjög vel.

Með henni leika tveir á blásturshljóðfæri, einn trommuleikari og einn á gítar. Þá kemur hún líklega til með að syngja inn á plötuna þó meginþorri hennar framlags verði á Hammond-orgel.

Sem fyrr segir leikur Sara fyrir leiðtogafundinn kl. 23 á lokaathöfn leiðtogafundarins. Lögin sem tekin verða fyrir eru frá hinum ýmsu aðildarríkjum og má gera ráð fyrir því að leiðtogarnir fylgist stoltir með sínum fulltrúum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert