Kílómetragjald á bensín- og díselbíla í samráðsgátt

Kílómetragjaldið á að koma í stað olíu- og bensíngjalda.
Kílómetragjaldið á að koma í stað olíu- og bensíngjalda. Ljósmynd/Colourbox

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur birt í samráðsgátt áform um frumvarp til laga um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja.

Er áformað með frumvarpinu að greitt verði fyrir fjölda ekinna kílómetra í samræmi við þyngd ökutækja óháð flokki.

Þetta kemur fram í samráðsgátt stjórnvalda.

Kílómetragjaldið á að koma í stað olíu- og bensíngjalda sem eru greidd við kaup á jarðefnaeldsneyti. Þau gjöld verða felld á brott samhliða upptöku kílómetragjaldsins.

Gjald taki mið af þyngd tækis

Lagt er til að kílómetragjald verði föst krónutala fyrir hvern ekinn kílómetra af ökutækjum með leyfða heildarþyngd 3.500 kg. eða minna, en fyrir liggur að þau ökutæki valda almennt áþekku vegsliti.

Ef leyfð heildarþyngd ökutækis er umfram 3.500 kg. mun fjárhæð kílómetragjalds taka mið af heildarþyngd út frá útreikningi á tilteknum þyngdarstuðli. Gjaldið fer því hækkandi með aukinni þyngd tækisins.

Tryggja fjárhagslegan hvata til orkuskipta

Þá er jafnframt lagt til að gjaldið verði greitt mánaðarlega út frá áætlun um meðalakstur á mánuði og gert upp þegar ný kílómetrastaða ökutækis er skráð á Ísland.is eða hjá faggiltri skoðunarstofu. Innheimta gjaldsins verði þannig með áþekkum hætti og tíðkast fyrir orkureikninga veitufyrirtækja.

Nýja kerfið á að tryggja fjárhagslegan hvata til orkuskipta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert