Kröfu sýningaraðila Perlunnar hafnað

Perlan í Öskjuhlíð.
Perlan í Öskjuhlíð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur hafnað kröfu Perlu norðursins ehf. um að fella úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að aðhafast ekki frekar vegna erindis félagsins og Samtaka ferðaþjónustunnar.

Þetta kemur fram í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar.

Perla norðursins ehf. og Samtök ferðaþjónustunnar kvörtuðu til Samkeppniseftirlitsins um að Náttúruminjasafn Íslands hygðist opna sýningu um náttúru Íslands í Náttúruhúsi á Seltjarnarnesi. Perla norðursins ehf. rekur sýningu í húsnæði Perlunnar í Reykjavík um íslenska náttúru og taldi að sýningin yrði í beinni samkeppni við sig.

Vildu fjárhagslegan aðskilnað safnsins

Erindi félagsins og samtakanna laut að því að rekstur sýninga Náttúruminjasafns Íslands myndi ekki geta staðið undir sér án styrkja frá íslenska ríkinu. Af þeim sökum skoruðu þau á Samkeppniseftirlitið að mæla fyrir fjárhagslegum aðskilnaði í rekstri Náttúruminjasafnsins.

Heimildin er til staðar í 14. gr. samkeppnislaga og felur í sér að eftirlitið geti mælt fyrir um fjárhagslegan aðskilnað hjá opinberu fyrirtæki ef hluti þess starfar í frjálsri samkeppni við önnur fyrirtæki. Er með þessu reynt að sporna gegn því að yfirburðir sem opinbert fyrirtæki nýtur séu nýttir öðrum markaði.

Ekki tilefni til að taka málið til skoðunar

Samkeppniseftirlitið tók erindi félagsins og samtakanna til athugunar og lagði mat á hvort tilefni væri til að hefja formlega rannsókn. Athuguninni lauk með því að eftirlitið taldi ekki forsendur til að taka málið til frekari skoðunar.

Áfrýjunarnefndin staðfesti það að ekki væru forsendur til að skoða málið frekar. Meðal annars sagði nefndin að miðað við efni málsins hafi fullnægjandi sjónarmið og gögn verið fram komin svo Samkeppniseftirlitið gæti lagt mat á tilefni rannsóknar. Jafnframt hafi málefnaleg og viðhlítandi lagagrundvöllur verið til staðar þegar ákvörðunin var tekin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert