Skólakerfið komið að þrotum

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði. Ljósmynd/Hafnafjarðarbær

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir það nokkuð ljóst að staðan í skólakerfinu sé afar alvarleg. Kerfið virðist vera komið að þrotum en að það eigi ekki að koma á óvart miðað við þróun síðustu ára. 

„Við höfum svo sannarlega brugðist við því hér í Hafnarfirði. Fyrir 10 árum þegar ég tók við sem formaður fræðsluráðs þá var sett í gang gríðarmikil vinna við það að reyna að bæta námsárangur og hæfni nemenda og fengum við til þess tvo kennslufræðinga úr háskólanum til þess að halda utan um það verkefni,“ segir Rósa. 

Mikilvægt að byrja í leikskólunum

Bæjarstjórinn segir að Hafnarfjarðarbær sé búinn að vera með í gangi mjög viðamikið og metnaðarfullt verkefni sem heitir Lestur er lífsins leikur sem sé læsisverkefni til að efla orðaforða, málþroska og málvitund barna og að þetta verkefni nái inn í leikskólana líka.

„Við áttuðum okkur fljótt á því að það væri mjög mikilvægt að byrja í leikskólunum. Að fylgjast með börnunum þar og veita þeim börnum sem þurftu stuðning. Við höfum verið með mjög öflugt verkefni sem miðar að þessu.“

Rósa segir að þetta verkefni hafi gefið góða raun í Hafnarfirði því þau hafi verið með eigin mælingar á milli ára. Þau séu kannski ekki að ná eins miklum árangri og þau vildu en væru að standa í stað á milli ára.

Mistök að leggja af samræmd próf

Rósa telur það mikil mistök að leggja af samræmd próf á sínum tíma. Þá hafi skólarnir ekki samanburðinn lengur.

„Það er auðvitað líka alveg með ólíkindum að skólar fái ekki birtar sínar niðurstöður úr PISA-könnuninni og ekki einu sinni sveitarfélögin. Það er auðvitað alveg fráleitt að sú sé staðan, að við þolum ekki þennan samanburð. Við verðum að hafa samanburð,“ segir Rósa.

Hún segir að það séu grundvallaratriði í kerfinu sem þurfi að horfast í augu við og breyta. Það sé ekki vænlegt til árangurs að hver bendi á annan, foreldrar, kennarar, ríkið og sveitarfélögin. Við þurfum að hjálpast að við þetta.

Kjarasamningar koma niður á skólastarfinu

Það er að hennar mati alveg ljóst að meðal þess sem bindur hendur okkar og komi niður á skólastarfi séu kjarasamningar við kennara. Þeir setji skólastarfinu miklar skorður.

Að hennar mati þurfi miklu meira svigrúm að koma þar inn til að geta ýtt undir skapandi skólastarf. Hún segist sjá það hjá einkareknum skólum í bænum sem hafa þetta svigrúm og að þeir séu að koma betur út.

Sjálfstætt starfandi skólar séu ekki bundnir að kjarasamningum kennara og njóta meira frelsis í störfum sínum.

Skóli án aðgreiningar er ekki að virka

„Síðan er það þessi stefna ríkisins um skóla án aðgreiningar sem komið var inn í skólanámskrá 2011. Sú stefna er ekki að virka og við þurfum að horfast í augu við það. Hún gerir ráð fyrir því að allir eigi sama rétt í kennslustofunni. Undanfarin ár hefur verið aukið álag í kennslustofunni á kennara og nemendur,“ segir Rósa og bætir við:

„Og á undanförum árum erum við að sjá allavega í tilteknum sveitarfélögum að enn er verið að auka álag með því að börn sem eru að koma úr alls kyns aðstæðum, flóttabörn og annað, eru að koma inn í þessar sömu kennslustofur og kennarinn á bara að taka á því.“ 

Eina landið í Evrópu með miðstýrða námsgagnagerð

Rósa bendir einnig á að Ísland sé eina landið í Evrópu sem er með námsgagnagerð eingöngu í höndum ríkisins, sem hún segir með ólíkindum.

Í nágrannalöndum eins og Svíþjóð og Finnlandi, sem koma vel út úr PISA-könnuninni, sé mikil samkeppni milli bókaútgáfa um að gefa út námsgögn sem nemendur og kennarar vilji nota. Hún bendir á að þarna þurfi t.d. að breyta lögum.

Rósa segist vita til þess að sumir kennarar séu að búa til sitt eigið námsefni og séu að þýða erlendar námsbækur til þess að mæta þörfum nemenda sinna og vekja áhuga þeirra. Hún segir þetta mjög gamaldags og úrelt kerfi og í rauninni ótrúlegt hvað við séum aftarlega í Evrópu hvað þetta varðar.

Þessir þrír þættir, kjarasamningar, skóli án aðgreiningar og námsgagnagerð, segir Rósa að sé það sem veldur því að við séum á þessum stað sem við erum dag.

Hún segir jafnframt að það sé gríðarmikill metnaður hjá skólafólki að gera vel en álagið sé oft á tíðum óbærilegt vegna ástandsins í skólastofunum. Þetta sé eitthvað sem við þurfum sameiginlega að vinna að.

Ytri aðstæður þarfnast endurskoðunar

„En við munum halda áfram að vinna með okkar góða verkefni sem við höfum verið með síðastliðin 10 ár. Við erum að sjá það á okkar mælingum þar sem við erum að mæla lesskilning, orðaforða, og ýmsar skimanir sem eru viðhafðar, að þetta er að skila árangri þótt við vildum sjá enn meiri árangur.“

„Þannig að við erum búin að vera gera mjög mikið í þessu undanfarin ár og ætlum að halda því áfram en það eru þessar ytri aðstæður sem þarf að endurskoða og stokka upp,“ segir Rósa að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert