Ætla að kortleggja stöðu allra skóla sveitarfélagsins

Kristófer segir að ráðist verði í kortlagningu á stöðu skóla …
Kristófer segir að ráðist verði í kortlagningu á stöðu skóla í Skagafirði. Samsett mynd/mbl.is/Sigurður Bogi/Colourbox

Í Skagafirði verður ráðist í kortlagningu á stöðu skóla á öllum skólastigum í haust. Skýrsla sem var gefin út í síðasta mánuði um stöðu drengja hringir öllum viðvörunarbjöllum. 

Þetta segir Kristófer Már Maronsson, formaður fræðslunefndar, í samtali við mbl.is.

„Strax í haust munum við hitta stjórnendur allra skólastiga á vinnufundi og þar geri ég ráð fyrir að við ræðum hvernig þessi kortlagning getur farið fram því hún er nauðsynleg forvinna áður en við semjum nýja menntastefnu, þar sem við munum gera kröfu um skýr, metnaðarfull og mælanleg markmið um námsárangur og vellíðan nemenda,“ segir Kristófer.

Horfa til þess að nýta samanburðarmælingar

Hann segir að sveitarfélagið muni horfa til þess að nýta samanburðarmælingar en einnig námsmatið sem fyrir liggur.

„Ég sé fyrir mér að þetta verði gert í virku samtali við nemendur og foreldra, ég vil spyrja foreldra hvernig þeir upplifa stöðu sinna barna og ég vil spyrja að minnsta kosti eldri nemendur og þá sem nýlega hafa lokið námi hvernig þau upplifa sína stöðu,“ segir hann og bætir við að það komi einnig til greina að fá utanaðkomandi aðila úr menntakerfinu til þess að gera úttekt á stöðunni, þótt það eigi eftir að útfæra.

Kristófer Már Maronsson, formaður fræðslunefndar í Skagafirði.
Kristófer Már Maronsson, formaður fræðslunefndar í Skagafirði. Ljósmynd/Facebook

Skoða verkefnið Kveikjum neistann

Í vor fengu grunnskólar í Skagafirði að taka LÆS III prófið sem Kveikjum neistann leggur fyrir nemendur í Vestmannaeyjum. Tveir skólar þáðu boðið, þó ekki var unnið með verkefnið að öðru leyti en að nemendur tóku próf. Niðurstöður eru ekki komnar en Kristófer er spenntur fyrir því að sjá niðurstöðurnar.

„Enda mikilvægt að nýta allar samanburðarmælingar sem við höfum kost á,“ segir hann.

Vilt þú að Skagafjörður semji við Kveikjum neistann til lengri tíma eins og gert var í Vestmannaeyjum?

„Við viljum að Skagafjörður bjóði upp á framúrskarandi menntun fyrir börnin okkar hvort sem þau fara í bóknám, verknám eða beint á vinnumarkað að loknum grunnskóla. Við munum skoða nánar þau verkefni sem nefnd eru að hafi skilað mælanlegum árangri í skýrslu um stöðu drengja í menntakerfinu, þar á meðal Kveikjum neistann-verkefnið sem lítur mjög vel út og skólasamfélagið í Vestmannaeyjum á mikið hrós skilið fyrir að taka af skarið,“ segir hann meðal annars.

Fyrst verður að kortleggja stöðuna“

Kristófer segir að í haust hefjist samtal við skólastjórnendur og íþróttakennara um aukna hreyfingu sem skipulagðari hlut af skóladegi barna.

Hann nefnir þó að ef ráðist verður í Kveikjum neistann í Skagafirði eða einstaka skólum þá yrði það gert á þeim forsendum að kennarar, foreldrar og aðrir hagaðilar væru sammála um að það væri rétt skref fyrir samfélagið. Ef tækifæri væru til staðar til að bæta menntun barnanna þá yrðu þau gripin.

„En ég legg áherslu á það sem ég sagði áðan að fyrst verður að kortleggja stöðuna, þá sjáum við hvar við erum að gera vel og hvar við getum gert betur,“ segir hann og bætir við að hann vilji virkja foreldra með í þeirri vinnu.

Hið opinbera megi ekki þvælast fyrir 

Að lokum segir hann að Ísland sé með eitt best fjármagnaða skólakerfi í heiminum og hafi alla burði til að vera með eitt besta skólakerfið. Það gæti þó þýtt að það þurfi róttækar breytingar.

Hann segir einnig að skýrsla sem var gefin út í síðasta mánuði um stöðu drengja hringi öllum viðvörunarbjöllum. 

„Skýrslan um stöðu drengja í menntakerfinu hringir öllum viðvörunarbjöllum, en það má ekki gleyma að staða stúlkna er ekki góð heldur. Hið opinbera má ekki þvælast fyrir í þessari vinnu heldur þarf að skapa það umhverfi til að skólasamfélagið geti blómstrað. Það þýðir að okkur þarf að vera sama hvaðan gott kemur, það á til dæmis ekki að þurfa ríkisstofnun til þess að heimila notkun ákveðinna námsgagna,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert