Rannsókn á stunguárás sem átti sér stað í Súðavík í júní er nú lokið hjá lögreglunni á Vestfjörðum.
Málið er komið til héraðssaksóknara sem fer með ákæru í málinu, að sögn lögreglunnar.
Eins og fram kom á mbl.is í síðustu viku var gæsluvarðhald yfir manni sem grunaður er um að hafa stungið annan mann í heimahúsi framlengt til 17. júlí vegna rannsóknarhagsmuna en nú er þeirri rannsókn lokið.
Lögreglunni á Vestfjörðum barst tilkynning klukkan 23.50 þann 11. júní um að karlmaður hefði verið stunginn í heimahúsi í Súðavík. Var hann með lífshættulegt stungusár sem þurfti að meðhöndla frekar en hann er ekki lengur í lífshættu.