Sýndi af sér stórkostlegt gáleysi með sölunni

Sýn hf, móðurfyrirtæki Stöðvar 2, höfðaði einkaréttarmál gegn Jóni Einari.
Sýn hf, móðurfyrirtæki Stöðvar 2, höfðaði einkaréttarmál gegn Jóni Einari. mbl.is/Hari

Jón Einar Eysteinsson var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að selja aðgang að ólögmætri streymisveitu sem veitti aðgang að öllum íslenskum sjónvarpstöðvum. Þá var bótaskylda hans gagnvart Sýn hf., sem höfðaði málið, viðurkennd.

Vísir fjallaði um mál Jóns Einars þegar það var höfðað í maí í fyrra. Í umfjölluninni kom fram að Jón Einar hefði selt aðgang að ólöglegri streymisþjónustu sem veitti aðgang að öllum íslenskum sjónvarpsstöðvum til ótilgreinds fjölda fólks.

Þá sagði að Jón Einar hefði auglýst þjónustuna markvisst, m.a. með dreifibréfum sem og inni á ýmsum Facebook-hópum.

Sinntu ekki lögbundnu hlutverki

Í tilkynningu frá Sýn kemur fram að fyrirtækið hafi ákveðið að höfða einkaréttamál gagnvart Jóni „í ljósi þess að lögregluyfirvöld og ákæruvald hafa ekki sinnt því lögbundnu hlutverki sínu í þessum málaflokki að rannsaka og gefa út ákærur þegar mál eru líkleg til sakfellingar“.

Héraðsdómur taldi sannað að Jón Einar hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að selja aðgang að streymisveitunni og að þar með hefði hann brotið gegn höfundarétti Stöðvar 2 sem heyrir undir Sýn.

Jón Einar var dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi auk þess sem fallist var á kröfu Stöðvar 2 um viðurkenningu á bótaskyldu. Þá var Jón Einar dæmdur til að greiða eina milljón króna í málskostnað.

Stöð 2 mun í framhaldinu sækja rétt sinn til bóta en í tilkynningu Sýnar kemur fram að félagið telur að tjónið geti numið tugum milljóna króna.

Boða til ráðstefnu um vandamálið

Í tilkynningunni segir sömuleiðis að málshöfðunin sé liður í stefnumörkun Sýnar og Stöðvar 2 við að verjast sjóræningjastarfsemi á höfundaréttarvörðu efni með öllum tiltækum leiðum.

Í því skyni hefur félagið nýverið gengið til liðs við Nordic Content Protection, sem eru norræn félagasamtök sjónvarpsiðnaðarins á Norðurlöndum, og mun Stöð 2 á haustmánuðum boða til ráðstefnu um vandamálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert