„Það er eðlilegt að skoða þessi mál út frá þjóðaröryggissjónarmiði, það segir sig sjálft.“
Þannig svarar Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, fyrirspurn mbl.is, um hvort hann telji mikilvægt að gera öryggisráðstafanir þegar farið er í framkvæmdir á borð við fyrirhugaða lagningu sæstrengja við strendur landsins.
Landsnet hefur skrifað undir samning við kínverskt sæstrengjafyrirtæki um sölu og lagningu sæstrengja við Ísland og hefjast framkvæmdir næsta sumar.
Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, velti fyrir sér þjóðaröryggismálum í tengslum við þennan samning og segir að ekki sé nægilega vel gætt að öryggi þjóðarinnar.
Spurður hvort hann telji ástæðu til að hafa áhyggjur af undirrituðum samningi Landsnets og kínverska fyrirtækisins Hengtong Submarine Cable, segir hann að ekki sé gott að draga ályktanir fyrirfram en bætir við að það eigi að vera grunnregla að huga að þjóðaröryggi.
„Við verðum alltaf að hafa augun á þjóðaröryggismálum.“
Guðlaugur beitti sér mikið fyrir fjarskiptamálunum sem utanríkisráðherra og löggjöfina varðandi þau út frá þjóðaröryggissjónarmiðum. „Þetta er hins vegar rafmagn, en það breytir því ekki að þetta eru innviði og það er mikilvægt að líta til þess og það munum við gera,“ segir hann og á við sitt ráðuneyti og utanríkisráðuneytið.
Hann telur mikilvægt að Landsnet kynni fyrir yfirvöldum hvað sé í vændum og hefur hann trú á að þau geri það.