Búist er við miklum mannfjölda á tjaldsvæðunum á Norður- og Austurlandi um helgina. Veðurspáin fyrir landshlutana er með besta móti og hefur veðurfræðingur hvatt landsmenn til að fara austur og norður vilji þeir komast í gott sumarveður.
Á sunnudag fer hiti allt upp í 25 stig á Egilsstöðum og að sögn Margrétar Lilju Skarphéðinsdóttur, starfsmanns á tjaldsvæðinu á Egilsstöðum, er tjaldsvæðið löngu orðið fullbókað.
„Það er bara allt stappað og margt fólk hérna,” segir Margrét.
Sömu sögu má segja af tjaldsvæðinu í Ásbyrgi, en Rakel Anna Boulter, landvörður við Vatnajökulsþjóðgarða, segir í samtali við Morgunblaðið að þétt sé setið á tjaldsvæðinu.
„Það er mjög þétt setið á tjaldsvæðinu og við erum með alveg pakkað bókunarkerfi.”
Rakel segir að tjaldstæði með rafmagni séu alltaf fyrst að fara og að þau séu sérstaklega eftirsótt á meðal Íslendinga.
„Það fyllist alltaf fyrst í rafmagnið og rafmagnsstæðin eru orðin alveg full. Það væri ekki hægt að koma alla helgina í rafmagn, en ef fólk vill koma eina nótt, væri alveg hægt að reyna koma þeim að,” segir Rakel.
Spurð hvort það sé sérstakur undirbúningur í gangi fyrir fullbókaða helgi eins og er fram undan segir Rakel að hann sé aðallega andlegur og hlær.
„Við erum bara vel mönnuð á tjaldsvæðinu og reynum að halda þessu snyrtilegu og fínu,” bætir hún svo við.