Gul viðvörun en sól og blíða á Austurlandi

Hitaspá klukkan 12 á hádegi í dag.
Hitaspá klukkan 12 á hádegi í dag. Kort/mbl.is

Það verður áfram sól og blíða á austanverðu landinu þar sem hitinn getur náð allt að 22 stigum. Það eru hins vegar gular veðurviðvaranir í gildi við Faxaflóa og við Breiðafjörð vegna hvassviðris og úrhellisrigningar.

Í dag verða sunnan 8-15 m/s en sums staðar 13-18 norðvestan til. Það verður rigning eða súld með köflum um vestanvert landið með hita frá 10-15 stigum. Eystra verður hægari suðvestan átt. Víða verður bjartviðri og hitinn þar verður 15-22 stig.

Á morgun verða sunnan 8-15 m/s á vestanverðu landinu. Það verður rigning og hitinn 10-15 stig en dregur úr úrkomu um kvöldið. Það verður hægari austan til, víða verður bjartviðri og hitinn 15-24 stig.

Gular viðvaranir á Faxaflóa og á Breiðafirði

Áfram eru gular veðurviðvaranir. Við Faxaflóa og á Breiðafirði er viðvörun í gildi og stendur til klukkan 18 í dag. Við Faxaflóa eru sunnan 8-15 m/s og talsverð eða mikil rigning, einkum á Snæfellsnesi og Mýrum. Ár og lækir munu vaxa mikið og geta orðið erfiðar yfirferðar, en einnig aukast líkur á aurskriðum og grjóthruni.

Gular veðurviðvarnir eru við Faxaflóa og við Breiðafjörð.
Gular veðurviðvarnir eru við Faxaflóa og við Breiðafjörð. Kort/mbl.is

Á Breiðafirði verða sunnan 8-15 m/s og talsverð eða mikil rigning, einkum á Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjarðakjálka. Ár og lækir munu vaxa mikið og geta orðið erfiðar yfirferðar, en einnig aukast líkur á aurskriðum og grjóthruni. Fólk er því hvatt til að forðast varasöm vöð og brattar fjallshlíðar.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert