„Hvað á það að kosta mörg slys?“

Daníel O. Einarsson er formaður Frama – félags leigubílstjóra.
Daníel O. Einarsson er formaður Frama – félags leigubílstjóra. mbl.is/Unnur Karen, Aðsend

Daní­el Orri Ein­ars­son, formaður Bif­reiðastjóra­fé­lags­ins Frama, seg­ir Banda­lag ís­lenskra leigu­bíl­stjóra hafa reynt að vara stjórn­völd við þeim af­leiðing­um sem myndu fylgja í kjöl­far laga­breyt­ing­ar um leigu­bif­reiðaakst­ur.

Lög­in voru samþykkt í des­em­ber 2022 og tek­in upp í apríl 2023 en til stend­ur að hefja end­ur­skoðun á þeim í haust og vill Daní­el að leitað verði til fé­lags­ins um ábend­ing­ar.

Sniðgengn­ir af Sig­urði Inga

Seg­ir hann að sér og öðrum for­svars­mönn­um leigu­bíl­stjóra hafi verið lofað fundi með ráðherra þegar samþykkja átti lög­in fyr­ir tæp­um tveim­ur árum. Að sögn Daní­els hafi ekki mátt breyta lög­um um fjölda­tak­mörk­un án sam­ráðs við Banda­lag ís­lenskra leigu­bíl­stjóra. Fé­lagið hafi hins veg­ar verið sniðgengið af Sig­urði Inga Jó­hanns­syni sem var innviðaráðherra á þeim tíma.

„Hann lofaði okk­ur fundi 16. des­em­ber. Þá vor­um við með ákall sem átti að ber­ast í hend­ur Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur [þáver­andi for­sæt­is­ráðherra]. Við stóðum í 40 mín­út­ur úti í 11 stiga frosti fyr­ir utan Ráðherra­bú­staðinn til þess að geta af­hent þetta ákall. Sig­urður Ingi tók við því og það hvarf og hann lofaði okk­ur fundi, en við feng­um hann ekki.“

Í ákall­inu, sem mbl.is hef­ur und­ir hönd­un­um og ber­ast átti til Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur, kem­ur m.a. fram að Nor­eg­ur hafi á þeim tíma verið að fara í end­urupp­töku á laga­breyt­ing­um eft­ir að hafa lent í vand­ræðum með leigu­bíla­markað sinn þegar lög­um þar var breytt.

Leigubílar í höfuðborginni.
Leigu­bíl­ar í höfuðborg­inni. mbl.is/​Inga Þóra Páls­dótt­ir

Vöruðu við hækk­andi verði

„Þeir voru bún­ir að fara í gegn­um þetta í Nor­egi og niður­stöðurn­ar voru komn­ar frá starfs­hópi á veg­um rík­is­ins að svona gæti þetta ekki haldið áfram. Þetta á að vera al­vöru­vinna – menn eiga að geta lifað á vinn­unni sinni og haldið þannig upp al­menni­legri þjón­ustu,“ seg­ir Daní­el og nefn­ir einnig Finn­land sem dæmi.

„Stjórn­völd bjugg­ust við því að nú yrði frjáls markaður og að fram­boð og eft­ir­spurn myndi ráða og menn myndu vera með sann­gjarnt verð. Að verð myndi lækka. Við vöruðum við því – að feng­inni reynslu – að þegar það kæmi frjáls leigu­bíla­markaður þá hækkaði verð. Í Finn­landi hafði það hækkað um 30%,“ seg­ir Daní­el og bæt­ir við:

„Finnska sam­keppnis­eft­ir­litið og neyt­enda­stofa gerðu út­tekt á þessu og komu með skýrslu og sendu mér þetta árið 2020. Þeir breyttu lög­un­um hjá sér árið 2018. Í sept­em­ber 2020 kem­ur skýrsla frá Finnska sam­keppnis­eft­ir­lit­inu sem sagði „sam­keppn­is­lög­um er ekki hægt að beita á leigu­bif­reiðaakst­ur eðlis starf­sem­inn­ar vegna. Verðið lækk­ar ekki – það hækk­ar.“

Voru fyrst og fremst að verja ör­yggi al­menn­ings

Seg­ir Daní­el að Banda­lag ís­lenskra leigu­bíl­stjóra hafi þá viljað koma um­sögn­um sín­um til stjórn­valda sem vöruðu við því að af­num­in fjölda­tak­mörk­un myndi hefta mögu­leika leigu­bíl­stjóra til að geta lifað á starfi sínu og ógna ör­yggi al­menn­ings.

„Við vor­um fyrst og fremst að verja ör­yggi al­menn­ings. Því um það snýst okk­ar at­vinnu­ör­yggi. Um leið og fólk er óör­uggt í leigu­bíl­um þá skil­ar það sér í óánægju í garð okk­ar og ómögu­legu vinnu­um­hverfi – og við erum farn­ir að upp­lifa það núna,“ seg­ir Daní­el og nefn­ir að fé­lag­inu Frama hafi borist til­kynn­ing­ar og kvart­an­ir vegna hegðunar út­lenskra leigu­bíl­stjóra en mik­il fjölg­un varð á þeim eft­ir að fjölda­tak­mörk­un um leigu­bíl­stjóra var af­num­in.

„Það eru þrír bíl­ar í röðinni og viðskipta­vin­ur kem­ur labb­andi og er að leita að ein­hverj­um bíl frá ákveðinni stöð og vel­ur þarna einn og hef­ur það frelsi. Viðskipta­vin­ur­inn ræður hvaða bíl hann tek­ur. Þá koma hinir tveir út og eru ekki sátt­ir við það. Snúa sér bæði að farþeg­an­um og bíl­stjór­an­um og það eru tvær þannig sög­ur sem hafa komið til okk­ar þar sem fólk bara lenti í átök­um við út­lend­inga. Einn tók bara tösk­ur úr bíln­um hjá viðkom­andi. Farþeg­inn var bara reiður og upp­lif­ir nátt­úru­lega bara árás á sig og þarna urðu átök sem voru kærð til lög­reglu en lög­regl­an hafði ekki tíma til að sinna því.“

Seg­ir Daní­el að oft sé líka erfitt að hafa uppi á þeirri nýju kyn­slóð leigu­bíl­stjóra sem keyri í borg­inni að sök­um þess að hægt sé að keyra án merk­ing­ar og séu þeir marg­ir með er­lenda færslu­hirða.

„Þú ferð og færð kvitt­un og á pos­an­um stend­ur Taxi Tún­is. Eða Taxi London. Hvernig ætl­arðu að hafa uppi á þeim? Bank­inn veit ekk­ert hvaðan þetta er. Þá eru þeir með posa með er­lend­an færslu­hirði.“

Einar vill að Bandalag íslenskra leigubílstjóra fái aðkomu að endurskoðun …
Ein­ar vill að Banda­lag ís­lenskra leigu­bíl­stjóra fái aðkomu að end­ur­skoðun laga um leigu­bif­reiðaakst­ur. mbl.is/​​Hari

Það eigi að vera starfs­nám

Nefn­ir Daní­el að málið hafi ekk­ert með út­lend­inga að gera, enda eru marg­ir út­lend­ing­ar sem starfi sem leigu­bíl­stjór­ar und­ir fé­lag­inu og eru til fyr­ir­mynd­ar í stétt­inni. Seg­ir hann málið snúa að því að starfs­nám sé ekki leng­ur skil­yrði til út­hlut­un­ar rekstr­ar­leyf­is áður en viðkom­andi hef­ur rekst­ur og hegðar sér án þekk­ing­ar um sóma­sam­leg viðskipti grein­ar­inn­ar. Leigu­bif­reiðaakst­ur sé sam­gönguakst­ur sem tengi aðra sam­göngu­máta þegar annað bregst.

„Það á að vera starfs­nám eins og var í lög­um. Menn voru bún­ir að keyra í að minnsta kosti 1.200-1.300 daga áður en þeir fengu leyfi. Það heit­ir starfs­nám und­ir leiðsögn reyndra manna í starfi und­ir stöð sem veit­ir þjón­ustu all­an sóla­hring­inn og sím­svör­un. Sím­svör­un er líka ör­yggi,“ seg­ir Daní­el og tek­ur sem dæmi að oft hafi komið upp til­felli þar sem aldrað eða veikt fólk tók leigu­bíl en þá gátu fjöl­skyld­ur fólks­ins haft upp á því í gegn­um rekj­an­leik­ann sem fylg­ir sím­svör­un.

Láta það mæta af­gangi að sinna viðhaldi

Hann seg­ir að tekj­ur þeirra sem starfi við grein­ina hafi einnig lækkað mikið eft­ir að fjölda­tak­mark­an­ir voru af­numd­ar og seg­ir Daní­el það einnig bitna á ör­yggi al­menn­ings.

„Hvernig eiga menn að lifa á sinni vinnu? Á hvernig bíl­um eru menn þegar þeir hafa eng­ar tekj­ur? Þeir eru á drusl­um. Þeir eru á gata­sigt­um og þeir láta það mæta af­gangi að skipta um dekk og brems­ur og sinna viðhaldi. Eins og einn sem rann út í Tjörn­ina. Var á sum­ar­dekkj­um að hausti.“

Nefn­ir þá Daní­el að það bitni á stétt­inni að ekki hafi verið leitað til banda­lags­ins á sín­um tíma.

„Rót vand­ans er að það var ekki hlustað á okk­ur. Stjórn­völd fóru eft­ir eig­in höfði. Þau fóru eig­in leið í þessu og það þýðir bara það að það er eng­inn að fara að finna upp hjólið. Þau eru bara að hlaupa á vegg,“ seg­ir Daní­el og bæt­ir við.

„Hvað á það að kosta mörg slys? Hvað á þetta að kosta þegar kem­ur að mann­orði okk­ar sem stétt? Hvað á þetta að skaða stétt­ina lengi? Á að stoppa þetta núna með laga­breyt­ing­um í janú­ar? Á loks­ins að tala við okk­ur þá? Eða á að halda áfram að reyna að finna upp hjólið og skaða fólk?“

Leigubílar í Lækjargötu.
Leigu­bíl­ar í Lækj­ar­götu. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

„Mun taka lang­an tíma að vinda ofan af þessu frelsi“

Eins og fyrr hef­ur komið fram mun end­ur­skoðun á lög­un­um fara fram í haust og vill Daní­el að Banda­lag ís­lenskra leigu­bíl­stjóra fái aðkomu að mál­inu. Seg­ir hann að harkið og spenn­an á markaðnum muni aðeins aukast ef ekki verður gripið í taum­ana.

„Við þurf­um að reyna að ná til eyrna stjórn­valda [...] ef fólk vill ekki leita til þeirra sem þekkja mál­efnið þá hlýt­ur fólk að fara með hlut­ina í gön­ur. Við vor­um bún­ir að segja það. Þetta fer svona og það fór ná­kvæm­lega þannig,“ seg­ir Daní­el og und­ir­strik­ar þá flóknu stöðu sem mynd­ast hef­ur á markaðnum.

„Sá sem keyr­ir á ekki bíl­inn held­ur get­ur eig­and­inn búið í Evr­ópu. Rekstr­ar­leyf­is­hafi get­ur búið í Evr­ópu. Hann get­ur verið bara þýsk­ur námsmaður og tyrk­nesk­ur bíl­stjóri sem er að keyra á Íslandi – held­ur þú að hann sé að spá í því að skipta um brems­ur og dekk á bíln­um? Hon­um er bara al­veg sama því hann á ekki bíl­inn. Hann er bara að keyra fyr­ir pen­ing. Jafn­vel til að senda pen­ing­inn úr landi. Enda er hann með posa sem er ekki á Íslandi,“ seg­ir Daní­el og bæt­ir við.

„Það mun taka lang­an tíma að vinda ofan af þessu frelsi.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka