Tvö mismunandi mál þar sem leigubílstjórar eru sakaðir um kynferðisbrot eru komin á borð héraðssaksóknara.
Þetta staðfestir Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og yfirmaður kynferðisbrotadeildar, í samtali við mbl.is.
Greint var frá í febrúar að tveir menn væru grunaðir um nauðgun og væri annar þeirra leigubílstjóri. Eiga mennirnir að hafa sótt konu á leigubíl á veitingastað í Hafnarfirði en fóru ekki með hana að heimili hennar. Þess í stað fóru þeir að hýbýlum annars þeirra í Kópavogi þar sem grunur leikur á því að kynferðisbrotið hafi átt sér stað.
Nokkrum dögum síðar staðfesti Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður kynferðisbrotadeildar, að annað mál varðandi kynferðisbrot leigubílstjóra á höfuðborgasvæðinu væri einnig til rannsóknar. Var sá leigubílstjóri sakaður um að hafa brotið gegn konu í leigubíl í Reykjavík í nóvember í fyrra.
Nú hefur Ævar, í samtali við mbl.is, staðfest að bæði málin séu komin á borð héraðssaksóknara þar sem ákveðið verður hvort lagðar verði fram ákærur á hendur leigubílstjóranna eða málin láta falla niður.
Er þetta þriðja kynferðisbrotamálið sem kemur upp á skömmum tíma varðandi leigubílstjóra en leigubílstjóri var dæmdur í tveggja ára fangelsi í febrúar fyrir að hafa nauðgað konu sem var farþegi í bíl mannsins frá Reykjavík til Reykjanesbæjar í september 2022.