Mikill áhugi fyrir Reykjavíkurmaraþoninu

Frá Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka.
Frá Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. mbl.is//Eggert Jóhannesson

Mikill áhugi er fyrir Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka sem í ár fagnar 40 ára afmæli.

„Miðað við síðustu tölur sem ég sá hafa 35% fleiri hlauparar skráð sig til leiks en á sama tíma og í fyrra og svipaða sögu er að segja um áheitasöfnunina,“ segir Selma Smáradóttir, verkefnastjóri hjá Íslandsbanka, í samtali við mbl.is.

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer í ár fram laugardaginn 24. ágúst, á Menningarnótt, og verður öllu tjaldað til að gera hlaupið sem glæsilegast á 40 ára afmæli maraþonsins. 

Patrik Atlason tekur lagið og ræsir keppendur í skemmtiskokkinu.
Patrik Atlason tekur lagið og ræsir keppendur í skemmtiskokkinu. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég veit að skemmtiskokkið og allur undirbúningurinn fyrir það verður í afmælisbúningi,“ segir Selma. Hún segir að Patrik Atlason, betur þekktur sem Pretty boy choco, muni meðal annars taka lagið og ræsa keppendur í skemmtiskokkinu.

Búast við 12-14 þúsund þátttakendum

Í fyrra voru 11.307 hlauparar á öllum aldri skráðir til þátttöku, þar á meðal keppendur frá 84 löndum. Í fyrsta Reykjavíkurmaraþoninu tóku 214 þátt í hlaupinu.

Hrönn Svansdóttir, verkefnastjóri og gjaldkeri hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur, segir við mbl.is að skráningar í Reykjavíkurmaraþonið séu að nálgast sjö þúsund.

„Það er góður gangur í skráningunni og við erum að búast við því að 12-14 þúsund manns taki þátt í hlaupinu. Við finnum fyrir miklum áhuga í skráningu og þá gengur áheitasöfnunin vel og betur en í fyrra,“ segir Hrönn.

Hrönn segir að fáir miðar séu eftir í heila og hálfa maraþonið og hún reiknar með því að það það verði uppselt í þau hlaup. Ekki er hægt að taka endalaust við skráningum í Reykjavíkurmaraþonið. 

„Við þurfum alltaf að gera áætlun upp á að panta verðlaunapeninga, veitingar og fleira og þá þurfum að passa upp á öryggi í brautinni. Plássið í Lækjargötunni er líka takmarkað svo okkar áætlun gengur út á að keppendur í ár verði á bilinu 12 til 14 þúsund,“ segir Hrönn.

Fjórar vegalengdir eru í boði í Reykjavíkurmaraþoninu en það er heilt maraþon (42,2 km), hálft maraþon (21,1 km), 10 km hlaup og 3 km skemmtiskokk.

Hátt í 300 manns hafa nú sett nafn sitt á undirskriftarlista þar sem Íþrótta­banda­lag Reykja­vík­ur (ÍBR), er hvatt til að ljúka sem fyrst ferli til að öðlast vott­un Frjálsíþrótt­ar­sam­bands Íslands (FRÍ) á Reykja­vík­ur­m­araþoni Íslands­banka.

ÍBR hefur borið fyrir sig að lög um persónuvernd standi í vegi að þátttakendur hlaupsins séu sjálfkrafa skráðir í afrekaskrá FRÍ.

„Þetta mál hefur verið á milli ÍBR og FRÍ en ég veit til að Íþróttasamband Íslands er komið í málið líka. Ég er nokkuð viss um hlaupið verður vottað í lengri vegalengdunum, heilu og hálfu maraþoni, í ár. Það er ekki víst með 10 km hlaupið en það verður örugglega vottað á næsta ári,“ segir Selma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert